Umræða um efnahagsmál Íslands, hvort plan ríkisstjórnarinnar, er starfhæft eður ei!

Hérna getið þið séð gott dæmi, um hve stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, upplifa efnahagsplan ríkisstjórnarinnar, með algerlega gerólíkum hætti, við fólk eins og mig, sem telur það fullvíst að það plan eigi eins og komið er, fjarska litla möguleika til þess að ganga upp.

Reyndar, er ég þeirrar skoðunar, að það plan hafi aldrei haft nokkurn slíkann möguleika. En, þ.e. önnur saga.

Fyrst svar mitt til Andra Haraldssonar:

Þetta er einnig hægt að nálgast á bloggsíðu Vilhjálms Þorsteinssonar: Hvað þurfum við mikla peninga að láni?

 

Andri - eina mögulega hegðun okkar hagkerfis um þessar mundir, er niðursveifla - og áframhaldandi niðursveifla.

Einungis með utanaðkomandi fjárfestingum, var hugsanlegt að framkalla aðra útkomu - - svo fremi, að við tökum ekki flóttaleiðina, þ.e. hið klassíska að skilja skuldirnar eftir.

En, slíik aðferð er klassík í viðskiptum innanlands.

----------------------------

En, sú leið, kemur einungis til greina, ef allt annað bregst.

Persónulega, held ég ekki að greiðslufall skili verri niðurstöðu, miðað við þá átt sem hlutir stefna í, í dag. En, skárri niðurstöðu, er hægt að ná fram, með þeirri leið að endurskipuleggja skuldir, og að sjálfsögðu, stöðva frekari skuldaukningu.

Það felur að sjálfsögðu í sér, harkalegan niðurskurð ríkisútgjalda. En, þ.e. nú orðið fullkomlega óhjákvæmilegt.

-----------------------------

En, þ.s. planlagðar fjárfestingar, eru greinilega ekki á leiðinni með að fara af stað, verður ekki hægt að skapa nægilegt tekjustreymi, til að standa undir þeirri auknu skuldabyrði, sem núverandi plan ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyri.

Þannig, að það verður að draga úr halla ríkisins, með nægilegum niðurskurði, til að ríkið komist hjá gjaldþroti án frekari lántöku.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 23.3.2010 kl. 03:01

-----------------------------------------------------------------

Síðan kemur svar Andra Haraldssonar til mín.

 

Einar Björn-

Ég vona að þú fyrirgefir mér að vera hreinskilinn. En það sem þú segir á sér enga stoð í reynsluheimi nokkurra þjóða, né á það sér stoð í nokkurri skynsemisgreiningu. Það er semsagt, bull.

Ísland hefur byggt upp hagkerfi sem er verðmætt. Það er verðmætt eins og það er. Það hefur ýmsum verðmætum verið sóað í óarðbærar fjárfestingar og vitleysu. Það þarf að borga fyrir. En hagkerfið er verðmætt, þeas. það er nettó tekjuskapandi.

En hvað gerir kerfið verðmætt? Fólk er menntað, fólk lærir að vinna, peningar skapast, fyrirtæki verða til. Átthagaþekking og innviðir eru verðmætin. Fólkið og orkan og landið og miðin. Það þarf að vera fólk og ferlar til að til séu þjóðfélög. Þetta er allt hérna og á ekki að henda því út bara af því að erfitt er í ári.

Þetta tal um að skera harkalega niður og taka engin frekari lán, og tal um að lýsa yfir greiðsluþroti er svona álíka gáfulegt og ef að fyrirtæki sem á vörubíl ákvæði að til að spara þá yrði ekki keypt meiri olía á bílinn, eða gert við sprungið dekk. Af því að tekjur dagsins í dag standi ekki undir slíku. Burtséð frá því að á morgun er enn næstum fullur tankur af olíu og hægt að afla meiri tekna, og dekkin endist árið út. Rekstur þarf fé og á Íslandi þarf rekstur erlent fé því að svo stór hluti aðfanga er erlendis frá.

Auðvitað þarf stöðugt að hagræða í rekstri ríkisins og annars staðar. En það er ekki skynsamlegt að fara bara að skera niður hægri og vinstri án þess að meta áhrifin. Það mun ekki laða að fjárfesta ef hér er allt í einhveri paník. Það sem laðar að fjárfesta er stöðugt umhverfi, sérstaklega fjárhagslega og tækifæri til að taka þátt í verkefnum sem byggjast á sérstakri hæfni/þekkingu/tækni/etc. En jafnvel að því gefnu að slíkt sé til staðar á Íslandi, þá verða engar alvöru erlendar fjárfestingar fyrr en komið verður á skikk í gjaldeyrismálum og fjárfestar geta verið vissir um að hægt sé að leysa út hagnað og færa hann í erlendar myntir.

Það er ekkert náttúrulögmál að Ísland sé í áralöngum öldudal. Landið er svo lítið að nokkur verkefni af miðlungs stærð (eins og þau gerast hjá fjölþjóðafyrirtækjum) geta breytt hagtölunum á einu til tveimur misserum. En á meðan menn kjósa að orna sér við að missa piss í skó, þá er ekki líklegt að þeim verði hlýtt.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 04:04

--------------------------------------------------

Svo, svara ég honum Andra aftur:

 

Ég verð að svara þér fullum hálsi - Andri.

Að sjálfsögðu, er það ekki lögmál, að hagkerfið fari í langa dýfu.

En, aðstæður geta orsakað slíka dýfu. Slíkar aðstæður eru akkúrat fyrir hendi í dag.

--------------------------------------------

  • Á þessu ári, verður sett nýtt heimsmet í framboði ríkistryggðra pappíra, sem seldir verða á markaði, til að fjármagna hallarekstur ríkissjóða iðnríkjanna.
  • Það þíðir, að fjárfestar geta valið og hafnað.
  • Það síðan, setur öflugan upp á við þrísting á þann ágóða, sem ríki þurfa að bjóða fjárfestum.
  • Þ.s. þetta hefur í för með sér, er að vaxtamunur milli þeirra ríkja er standa tiltölulega vel og þeirra sem standa verr, er að aukast fremur en hitt.
  • Þú getur flett því upp sjálfur, en í síðustu viku urðu Grikkir að selja stórt útboð skuldabréfa milli 6-7% vöxtum. Grikkir hafa um 350 punkta skuldatrygginga-álag, á meðan Ísland hefur um 450 punkta álag.
  • Þetta þíðir á mannamáli, að vaxtakrafa á Ísland, er hærri.

Ég skil ekki af hverju þið tveir, þú og Vilhjálmur, getið látið eins og þetta sé ekki alvarlegt vandamál.

En, þetta þíðir, að ríkið - hið opinbera - og einnig fyrirtæki í eigu ríkis og hins opinbera; geta einungis fengið lán á mjög erfiðum kjörum.

Á því stendur, þ.s. fjármagnskostnaður lána, er of hár, til að hagnaður náist fram. Þannig, að ekki hefur enn verið, gengið frá einu einustu fjármögnun, þeirra stóru virkjana er áttu að hefjast framkvæmdir við, á næstunni.

Þetta, þ.e. stórframkvæmdir, áttu að koma hagkerfinu í hagvöxt.

Stórframkvæmdir, áttu einnig að dæla fjármagni inn í landið, og þar með koma á móti fjármagnsútstreymi.

-----------------------------------------

Ef þetta fjármagnsinnstreymi verður ekki, þá er einfaldlega ekki mögulegt að framkalla hagvöxt, á næstu misserum og sennilega á það einnig við, næstu 2-4 ár.

Þannig, að það tímabil, verði samfellt samdráttartímabil.

Hvers vegna?

  • Skv. áætlun AGS í fyrra, töldust milli 50-60% fyrirtækja, vera með ósjálfbæra skuldastöðu. Þessi vandi var ekki leystur, heldur settur í tímabundinn frest, sbr. aðgerð bankanna skv. vilja ríkisstjórnar, að veita 50% fyrirtækja tímabundna lækkun greiðslubyrði. Sú lækkun rennur út á seinni helmingi þessa árs. Þessi tímabundna lækkun, er nægileg skýring þess, af hverju samdráttur varð ívið minni á síðasta ári, en hafði verið spáð. Plön voru um, að stórframkvæmdir væru hafnar á seinni helmingi þessa árs. Þannig, að sú fjármangsinnspýting átti sennilega að mæta, þeim samdrætti er flyst frá síðasta ári, yfir á seinni helming þessa árs, þegar hin tímabundna aðgerð rennur út. En, þ.s. þær framkvæmdir verða ekki komnar af stað, þá í staðinn kemur sá samdráttur fram að fullu, sem mjög mikill samdráttur á seinni helmingi ársins ofan á annan samdrátt.
  • Punkturin er, að þessi 50% fyrirtækja, munu verða að skera mjög mikið niður í rekstri, selja eignir, hagræða og spara í hvívetna - þ.e. þau sem lifa. Óhjákvæmilega, fer veruleg hlutfall þeirra á hausinn. Þetta samdráttartímabil, einkahagkerfisins mun taka tíma.
  • Hafðu í huga - að hækkaðir skattar - of háir vextir - draga einnig peninga úr einkahagkerfinu, og þetta hægir því á þeim fyrirtækjum, sem ættu að vera að vaxa, og fylla skarð þeirra sem falla frá á næstu misserum. Þetta hjálpar mjög á um, að ástandið verði, þ.e. nettó-ástandið, verði samdráttur.
  • Ofan á allt þetta, er það skuldakreppa almennings, sem veldur áframhaldandi krepptri neyslu. Það hefur einnig neikvæð áhrif á atvinnu-uppbyggingu, þ.s. þá vanta eftirspurn sem er vanalega einn af höfuðdrifkröfum hagvaxtar.

---------------------------------------------

Þú verður að gera betur, en að fullyrða að þ.s. ég segi sé vitleysa, þegar ég kem með svona öflug rök.

Ég bendi á, að ég hef borið mín rök, undir erlenda hagfræðinga, sem ég þekki. Þar á meðal ágætann prófessor, í Amsterdam.

Kv.

--------------------------------------------------------------

Svo, annað svar, Andra til mín:

 

Einar Björn-

Fyrirgefðu aftur að mér finnast rök þín léttvæg, en hér eru svör þrátt fyrir það.  Og prófessorinn vinur þinn sem var að bera Ísland saman við Mexíkó ætti að kynna sér málin.  Löndin eru eins ólík og vera má og samanburðurinn út í hött.   Þú getur farið í gegnum næstum hvaða þátt í þjóðfélagsbyggingunni og séð það sjálfur:

  • Menntunarstig
  • Mannfjöldi
  • Atvinnugreinar
  • Heildarskuldastaða
  • Möguleikar til nýsköpunar
  • Stjónarfarslegir innviðir
  • Fátækt
  • etc. etc. 

En varðandi röksemdir þínar.  Allt þetta sem þú nefnir um fjármögnun ríkisins og samanburður við Grikkland og tal um hvað aðrar þjóðir séu að gefa út mikið af skuldabréfum er ótengt Íslandi.  Það eru fyrir hendi fjámögnunarsamningar sem eru miklu hagstæðari, niðurgreiddir af norðurlöndunum og AGS.   Grein Vilhjálms skýrir ágætlega hvernig fjárþörf ríkissjóðs er mætt AÐ FULLU með þeim aðgerðum.

Fjármagnskostnaður á Íslandi er hár.  Það stafar meðal annars af því að landið er í raun lokað fyrir erlendu fjármagni.  Hin ástæðan er íslenska krónan.  Það er mat íslenska ríkisins í dag að verja krónuna, frekar en skipta henni út.  Um það má og á að deila, en niðurstaðan er ótvírætt sú að það er gerir lánsfé dýrara að hafa gjaldmiðilinn þar sem það hræðir erlent fjármagn og skekkir stöðu innlendra atvinnugreina.   En einmitt vegna þess að fjármagnskostnaður innanlands er hár, eru tækifæri fyrir erlenda fjárfesta, ef ríkið gengur frá fjármögnun sinni og eðlileg gjaldeyrisviðskipti komast á á ný.

Fjöldi innlendra fyrirtækja sem eru í erfiðri fjárhagsstöðu er í raun aukaatriði.  Mörg þessara fyrirtækja eru í vandræðum fyrir 1) fjármagnskostnað vegna slæmra fjárfestinga, 2) minnkandi tekjur vegna samdráttar í fjárfestingu innanlands.  Ef þessi fyrirtæki fara á hausinn þá tapast ekki geta þeirra til að framkvæma hluti, heldur verða bara eigendaskipti.  Nettó hefur slíkt lítil áhrif á getu hagkerfisins – að því gefnu að reksturinn sé hluti af arðbærum þáttum efnahagslífsins.    Restin af fyrirtækjunum sem hafa verið í rekstri tengdum neyslu innanlands geta, í megin dráttum, bara farið á hausinn og það hefur lítil áhrif á hagkerfið.  Fólkið sem vann í þeim þarf tíma til aðlögunar og ný störf – þau störf verða til með því að  tryggja að ný fyrirtæki sem byggja á verðmætasköpun séu stofnuð.

Hækkun skatta er ekki góð, sérstaklega ef litið er til skamms tíma.  Á það geta allir fallist.  En ríkið þarf að tryggja sér tekjur til að standa straum af rekstri sínum.  Þó að 30% ríkisstarfsmanna væru látnir fara í dag, þá þarf samt að borga uppsagnarfrest og síðan atvinnuleysisbætur.  En með því að ríkið fái inn fjármagn til að standa undir endurfjármögnun langtíma fjárfestinga, þá má vona að ríkið þurfi ekki að þurrka upp allan gjaldeyri líka.  Til mið og lengri tíma verður svo að skera niður ríkisrekstur á Íslandi með skynsömum hætti.

Samdráttur einkaneyslu innanlands, þó að það komi illa við fjölskyldurnar í landinu og þá sem hafa verið í rekstri byggðum á neyslu, er meiriháttar búbót fyrir hagkerfið sem slíkt.  Ef Ísland væri fyrirtæki, er þetta líkt því að samið hefði verið um launalækkun á línuna.  Það eina sem skiptir máli í skammtíma tilliti -- til að koma hagkerfinu úr lægðinni -- er að tryggja að rekstur gjaldeyrisskapandi fyrirtækja haldi áfram og að aðstæður séu þær að nýtt erlent fjármagn geti komið til landsins.  Það eru erfiðar breytingar framundan í hagkerfinu innanlands, fyrirtækin sem fólk vinnur í þurfa að verða meira byggð á verðmætasköpun og minna á innanlandsneyslu. 

Þau margfeldisáhrif sem verða af því að fá erlenda fjárfestingu inn á landið eru algert lykilatriði.  En þá er líka mikilvægt að ekki er öll erlend fjárfesting jafngóð.  Ef fjárfest er fyrir $100 milljónir og $90 milljónir er innflutningur á erlendum hlutum þá er það ekki eins gott og $20 milljóna fjárfesting sem að mestu leyti er varið til launa og þjónustu innanlands.  Hér getur ríkið haft mikil áhrif með því að gefa ákveðnar skattaívilnanir byggðar á því hvernig fjárfestingarnir eru skipulagðar. 

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 23.3.2010 kl. 13:34

 

Seinna svar Andra Haraldssonar, er um margt athyglisvert, því þar krystallast afstaða talsmanna ríkisstjórnarinnar, til efnahagsplans hennar og hvernig þeir telja framvindu mála sennilega spilast:

  •  Skuldastað: ríkisstjórnin og talsmenn hennar, og skoðanabræður - þreitast ekki á, að benda á, að þeirra mat sé að skuldir Íslands séu ekki að ráði verri, en skuldir ímissra annarra ríkja.

Slíkar fullyrðingar eru mjög villandi, þ.s. þeir þættir sem skipta máli eru:

  1. Samsetning skulda.
  2. Greiðslugeta.

Samsetning skulda er óhagstæð, þ.e. hátt hlutfall skulda er í öðrum gjaldmiðli en okkar eigin. Að auki, er óþægilega hátt hlutfall, á óhagstæðum kjörum.

Skuldir í erlendry mynnt, greiðast með afgangi af gjaldeyri - en, ekki með landsframleiðslu.

Þess vegna, hefur verið svo gríðarleg áhersla á, að ná fram öflugum gjaldeyris afgangi. Því miður hefur það ekki tekist enn, þrátt fyrir að á síðasta ári, hafi lokastaða árs verið 90 milljarða afgangur af vöruskiptum við útlönd, þá lyktaði reikningi landsins við útlönd samt í um 50 milljarða mínus.

Ríkisstjórnin vonast til, að gjaldþrot fyrirtækja er skulda í erlendry mynnt, og afskrift skulda þeirra; muni smám saman gera þessa nettó greiðslustöðu þjóðfélagsins hagstæðari, með öðrum orðum gera hana jákvæða.

Síðan er það sala eigna, sem ríkinu áskotnaðist við hrun bankanna á sínum tíma. En, vonast er til að sú eignasala, minnki skuldir að nægilegu marki, til að þær skuldir sem plön ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir að bæta við, verði seinna meir viðráðanlegar.

 

------------------------------------

  • Lánin frá AGS og Norðurlöndunum, mæta fjármögnunarþörf Íslands:

Þarna tekur Andri ekki á ítrekaðri ábendingu minni, að þegar ég gerði samanburðinn við Grikkland, var ábending mín sú; að fyrirtæki í eigu hins opinbera, eiga ekki möguleika á erlendri fjármögnun á nægilega hagstæðum kjörum.

En, ein af frumforsendum efnahags plansins, er sú að til þess að koma atvinnulífinu af stað, og einnig til að vega ennfremur á móti því fjármagnsstreymi, sem um þessar mundir á sér stað úr landinu; þá er þörf á stórfeldum fjárfestingar verkefnum.

Andri kýs greinilega, þrátt fyrir að hið gagnstæða komi mjög skýrt fram hjá mér, að líta svo á að ég sé að tala um lánsfjármögnun ríkisins. 

Ef þessi fjárfestingar verkefni fara ekki af stað, þá verður enginn hagvöxtur hérlendis á næstu misserum, og sennilega ekki næstu 2-4 árin.

Vandinn er sá, að til þess að álvers framkvæmdir geti farið fram, þarf einnig jafnhliða að hrinda í framkvæmd mjög stórfelldum virkjanaframkvæmdum. Þ.s. þær framkvæmdir, eru á hendi innlendra aðila, þ.e. OR og LV; þá er það einmitt, mjög relevant vandamál, vandi Ísland við það að fá, erlend lán á viðráðanlegum kjörum.

Fram að þessu, er engin af þeim virkjanaframkvæmdum, sem á að ráðast í; komin með fjármögnun. Og, að auki, í ljósi ástand á erlendum skuldabréfamörkuðum, er ekkert sem bendir til að ástandið batni hið minnsta út þetta ár. Þvert á móti, mun þetta ár verða mjög erfitt ár, þ.s. aldrei nokkru sinni í heimssögunni, stendur til að fjármagna eins mikið af skuldum ríkissjóða á markaði.

Að sjálfsögðu, er einnig áhugaverð sú afstaða Andra, og annarra innvígðra stjórnarsinna; að lánin frá AGS og Norðurlöndunum, séu nauðsynleg fjármögnun ríkissjóðs.

 

---------------------------------------

  • Áhugaverð svör hans um ábendingu mína, að milli 50 - 60% fyrirtækja eru metin með ósjálfbæra skuldastöðu.

Hann telur þetta lítilvægt atriði, þ.e. fyrirtæki sem hafa tengst innlendri neyslu fari á hausinn, en við það tapi hagkerfið litlu. Vinnuafl, muni þurfa að aðlaga sig, og sækja á önnur mið í störf.

Ég held að það sé ljóst, að hann þarna í raun viðurkenni þ.s. ég er að segja, -  en í því sem verður að kallast fremur kuldalegt orðaval, felst í raun mjög stórfelld aukning á atvinnuleysi, akkúrat eins og ég hef verið að tala um. Sennilega e-h í kringum 20%.

Að auki, þá minnka óhjákvæmilega umsvif hagkerfisins, þ.e. velta; með því að öll þessi fyrirtæki rúlli. Á sama tíma minnka skatttekjur ríkisins, halli eykst og að auki; þá hækka skuldir ríkisins sem hlutfall þjóðarframleiðslu, einmitt vegna þess að sjálft hagkerfið minnkar.

Síðan, talar hann um, að fyrirtæki muni skipta um eigendur, þá á hann við fyrirtæki sem enn muni geta haft möguleika á, að reka sig með arðbærum hætti. Það má reyndar rétt vera, að nýi eigendur muni koma fram, sérstaklega ef hægt verður að taka þau yfir með litlum tilkostnaði.

En, hinu má ekki gleyma heldur, að ekki er bara nóg að nýir eigendur komi, þeir þurfa einnig að hafa aðgang að nægilegu fjármagni, til að efla rekstur þeirra fyrirtækja. Ef, það fjármagn er af skornum skammti, þá erum við ekki að tala um, að slík yfirtekin fyrirtæki umbreytist á einhverjum skömmum tíma, á ný yfir í það að vera öflug fyrirtæki, með stóraukinn fjölda starfsmanna.

Ábending mín, sem sagt var sú, að aðlögun sú sem fyrirtækja hagkerfið muni þurfa að fara í gegnum, muni óhjákvæmilega skila ástandi nettó samdráttar, á meðan sú aðlögun fari fram. Þ.e. að atvinnulífið kúpli frá því að hafa helst til mikla áherslu á innlenda neyslutengda þjónustu starfsemi, yfir í að efla ný fyrirtæki í útflutnings rekstri. Slík aðlögun verður ekki á einni nóttu, jafnvel þó Ísland sé lítið og talið fært um tiltölulega hraða aðlögun; þá erum við samt að tala a.m.k. um að sú aðlögun taki einhvern árafjöld. Framan af því tímabili, 2-4 næstu ár, verði nettó samdráttur í innlenda einkahagkerfinu, en eftir það má vera að sú aðlögun fari að skila sér, og ný fyrirtæki séu farin að eflast nægilega til að minnkun atvinnuleysis geti hafist; og þá jafnvel sjálfssprottinn hagvöxtur.

Yfir þetta tímabil, verði mikið atvinnuleysi - þ.e. 20% +

 

------------------------------------------

  • En ríkið þarf að tryggja sér tekjur til að standa straum af rekstri sínum.  Þó að 30% ríkisstarfsmanna væru látnir fara í dag, þá þarf samt að borga uppsagnarfrest og síðan atvinnuleysisbætur.  En með því að ríkið fái inn fjármagn til að standa undir endurfjármögnun langtíma fjárfestinga, þá má vona að ríkið þurfi ekki að þurrka upp allan gjaldeyri líka.  

Þetta var þ.s. Andri Sagði, greinilegt er af orðum hans, að hlutverk lánapakkans frá AGS og Norðurlöndunum, er nú orðinn sá að borga hallann af ríkissrekstri + standa straum af því að borga afborganir af erlendum gjaldeyrislánum ríkissjóðs + borga nettóhallann af sjálfu landinu gagnvart útlöndum.

  1. Rétt er að taka frma, að flestir ríkisstarfsmenn eru með svipuð kjör um uppsagnarfrest og gildir á almennum vinnumarkaði. Einungis lítill hluti ríkisstarfsmanna, nýtur annarra og mun hagstæðari kjara. 
  2. Önnur augljós ábending, er að atvinnuleysisbætur eru lægri og því, sparnaður nettó í því falinn, að færa fólk þangað.
  3. Síðan, er sennilega nauðsynlegt að þrengja rétt til bóta, þ.e. að allir fari um leið á grunnbætur, í stað þess að njóta hlutfalla launa, um nokkurn aðlögunartíma.
  4. Ofan á þetta, held ég einnig, að ríkið þurfi að lækka bætur - þ.e. þ.s. greitt er í peningum. Ég held, að rétt sé, að umbreyta hluta bóta, í það form, að fólk fái matarmiða er gilda í tilteknum verslunum.

 

Lykilatriðið, í augum stjórnarsinna, er greinilega sú fjármögnunarþörf, sem þeir miða við.

  1. En, ef minna er tekið inn af skuldum, þ.e. AGS pakkinn er annað af tvennu, skorinn alveg af - þannig að skuldir ríkisins hækki ekki mjög mikið umfram þau 80% sem þær standa nú í; í stað þess að fara í 140% ef allur pakkinn er tekinn. Þá, um leið minnkar fjármögnunar þörf, sem starfar af þörf til að standa undir skuldum.
  2. Fjármögnunarþörf vegna halla, er réttast að mæta, með niðurskurði. Þ.s. þarf, er róttækasti niðurskurður í ríkisrekstri í lýðveldissögunni. Það þarf að skera halla ríkissjóðs, um a.m.k. 100 milljarða, og þ.s. fyrst.
  3. Þá minnkar um leið, það álag á innlenda fjármögnun ef miðað er við, að fjármagna restina af hallanum hérlendis.

 

Síðan, kemur furðuleg setning, um að ríkið sé að fá inn fjármagn, til að standa straum af fjármögnun langtímafjárfestinga.

  1. Þetta er alveg ný skilgreining á lánapakka AGS og Norðurlanda.
  2. En, fram að þessu, hefur ekki átt að nota það fé, til innlendra fjárfestinga af nokkru tagi.
  3. Svo, er nú lánapakkinn kominn með enn eitt hlutverkið, þ.e. að fjármagna upphaf innlendra framkvæmda? 
  4. Ef svo er, þá eru þessi lán, að verða í augum stjórnarsinna einhvers konar allsherjar redding.

 

Hætt er við því, að ef því hlutverki er bætt við ofan á öll þau hin fyrri, þá verði sá lánapakki ansi miklu mun fyrr upp urinn; en gert hefur verið ráð fyrir.

En, er þetta það útspil sem er á leiðinni frá ríkisstjórninni.

Að nota lánin upp með methraða, með því að spreða þeim ofan á allt annað, í framkvæmdir?

Hvað segið þið gott fólk?

Comment þegin.

----------------------

Smá comment frá Jurshevski:

Tell him that the IMF is a "creditor friendly" organization for starters and that there will be no money coming from the loans for Iceland. He should go to the website and phone the Latvians. The money will be used to pay off key creditors and Iceland will be stuck with the bill.


Alex Jurshevski

Recovery Partners

 

 

Kv.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Um bloggið

Einar Björn Bjarnason

Höfundur

Einar Björn Bjarnason
Einar Björn Bjarnason
Stjórnmála- og Evrópufræðingur. Áhugi á stjórnmálum, Evrópumálum, alþjóðamálum, málefnum Miðausturlanda, trúmálum, vísindum og tækni, og margt fleira.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Eldri færslur

2025

2024

2023

2022

2021

2020

2019

2018

2017

2016

2015

2014

2013

2012

2011

2010

2009

2008

Nýjustu myndir

  • Mynd Trump Fylgi
  • Kína mynd 2
  • Kína mynd 1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.1.): 10
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 65
  • Frá upphafi: 859307

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 57
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband