Hvar á að gera jarðgöng?

Um þetta er reglulega rifist, og sitt sýnist hverjum. Vandinn er ekki síst að hvaða göng eru mikilvægust fer gersamlega eftir því út frá hvaða forsendum þú skoðar málið. Þú færð gersamlega ólíka röð í mikilvægi eftir því hvort þú raðar dæminu upp skv. efnahagslegum forsendum eða hvort þú raðar því upp eftir félagslegum forsendum.

 

Efnahagslegar forsendur

Í reynd sára einfalt, sníst um það hvar það skilar mestum þjóðhagslegum gróða að setja upp jarðgöng. Vanalega er hagkvæmara að tengja saman fjölmenna staði en fámenna. Þá er útgangspunkturinn - hvar er unnt að skapa gróðavænleg atvinnusvæði, eða gera slík sem fyrir eru enn öflugari.

Þarna er ekkert tillit tekið til félagslegra þarfa.

Þ.e. einmitt út frá þessu sjónarmiði sem jarðgöng undir Vaðlaheiði eru sigurvegarar. En mælt út frá félagslegum óþægindastuðli, eru þau í allt annarri forgangsröð - eins og sést á þeirri gagnrýni að svæðið þurfi mun minna á göngunum að halda en mörg önnur svæði.

Ef aftur væri horft á að hámarka fjárhasglegann ávinning af gangagerð, þá væru næstu göng í beinu framhaldi, göng undir Fjarðarheiði sem tengir Seyðisfjörð við Egilsstaði.

  • Það sem þá vinnst, er að hafa láglendisveg alla leið frá Seyðisfirði til Eyjafjarðar.
  • Það myndi þíða, að Seyðisfjörður yrði útflutningshöfn og innflutnings, fyrir allt svæðið frá Austfjörðum alla leið til Eyjafjarðar.
  • Í reynd væri þá komin staður eða svæði, sem gæti keppt við Reykjavík.

Ef svo væri haldið áfram að miða við þjóðhagslega hagkvæmni eingöngu, þá ætti í framhaldi af Fjarðarheiðargöngum, að gera flr. göng á Austfjörðum til að tengja svæðið betur við meginsvæðið - Seyðisfjörð/Egilsstaði - til að efla svæðið enn frekar.

 

Ef mælt út frá félagslegri þörf

Þá líklega þarf mest að gera göng á Vestfjörðum, því ekkert svæði hefur stærri óþægindi sem unnt er að taka af með gangagerð en Vestfirðir. En vegalengdir í sumum tilvikum margfaldast á vetrum, því láglendisvegir í tilvikum eru gríðarlega mikið lengri í km. talið. Í tilvikum lenging um meir en 100km. til að komast í þjónustu.

Þetta svæði er á hinn bóginn síðast í röðinni, ef mælikvarðinn er þjóðhagsleg arðsemi, sem ræðst af því hve Vestfirðir eru fámennir.

Vestfirðingum hlýtur að finnast þeir afskiptir - en vandinn er hjá þeim að í lýðræðissamfélagi, vinna oftast nær þeir sem eru fjölmennari yfir hagsmuni þeirra sem eru fámennari.

Þarna sést rifrildið um þörf vs. ávinning í hnotskurn.

Sannarlega eru göngin í gegnum Vaðlaheiði mjög aftarlega í forgangröð út frá félagslegum mælikvörðum.

En þau vega mun meir en göng á Vestfjörðum, ef miðað er við þjóðhagslegann ávinning, vegna þess að þau stækka fjölmennasta atvinnusvæðið á landsbyggðinni.

Það gerir þau göng mikilvægust út frá þjóðhagslegum ávinningi, sem mælir fyrst og fremst, hvað skilar mestum peningum.

 

Niðurstaða

Göng undir Vaðlaheiði verða næstu jarðgöng gerð á Íslandi, vegna þess að Eyjafjarðarsvæðið og Noðurland Eystra vill þessi göng, og það er fjölmennasta svæðið á landsbyggðinni.

Hefur því einnig mest pólitísk áhrif á Alþingi.

Í lýðræðisfyrirkomulagi, vanalega vinna hagsmunir þeirra fjölmennu yfir hagsmuni þeirra fámennu.

Ég spái því að Vestfyrðingar haldi áfram að vera aftarlega í röðinni, vegna þess hve fámennt það svæði er, þó svo að mælt út frá félagslegum mælikvarða, sé þörf þeirra fyrir jarðgöng langmest.

Virkilega hlýtur þeim að finnast þetta ósanngjarnt.

En heimurinn er ekki sanngjarn.

Hann hleður alltaf undir þá sterku - þá fjölmennu.

 

Kv.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Samþykt var á Alþingi að Norðfjarðargöng yrðu næstu göng á eftir Héðinsfjarðargöngum, það þarf ekkert meira um það að segja.!!

Eyjólfur G Svavarsson, 1.4.2012 kl. 16:01

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Einar.

Það er ein mjög stór rökvilla hjá þér, rökvilla sem áttar sig ekki á að ef sá stóri gengur alltaf á rétt hins smærri, þá hefur sá smærri ekki lengur hag af að tilheyra heildinni.  Þess vegna gera stærri heildir, sem eru orðnar þreyttar á kostnaði valdsins, alltaf stjórnsýslulegar umbætur sem taka efnislega á umkvartanir hinna smærri.

Á Íslandi fólust þessar stjórnsýsluumbætur í apparati sem hét samgönguáætlun.  Þar eru margir þættir vegnir og metnir, þeir sem þú nefnir og líka einn sem þú skautar algjörlega framhjá, samgönguöryggi.

Að lokum þá verð rangt með að Vaðlaheiðargöng séu þau göng sem skapa mestan þjóðhagslegum gróða, og þetta átt þú að vita sem talnaglöggur maður. 

Bílaumferð er enginn mælikvarði á þjóðahagslegan gróða, svo einfalt er það.

Þér hefur oft tekist betur til en núna Einar.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.4.2012 kl. 17:31

3 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ómar - ég var að tala um stækkun atvinnusvæðis. Nefndi hvergi bílaumferð. En ég er þess fullviss, að þessi göng eru hagkvæm ekki út frá mælingum á bílaumferð, heldur skv. greiningu á þeim möguleikum sem skapast fyrir atvinnulíf á svæðinu, og síðan í framhaldinu ef einnig væri bætt við göngum í gegnum Fjarðarheiði. Þá yrði eins og ég nefndi, Seyðisfj. að útfl. höfn fyrir allt svæðið fyrir Austan og Ystri helming Norðurlands. Það gæti orðið gríðarleg lyftistöng fyrir það svæði.

Svo má ekki gleyma draumum um olíu og opnun íshafs - sem örugglega er einnig að hluti af því, sem ítir á NE að þröngva þessum göngum í gegn.

Á NE eru miklir draumar í gangi.

----------------------

Ég neita því ekki að í því felst töluverð frekja, að grípa með þessum hætti fram fyrir samþykkta samgönguáætlun.

En mér sýnist að innan NE sé full samstaða um það, að þrísta þessu í gegn hvað sem tautar og raular.

Þeir beita sínum þingstirk þvert á flokka, en allir þeirra þingmenn hafa barist fyrir málinu á Alþingi, fæ ég ekki betur séð.

---------------------------

Þarna er í gangi barátta milli landshluta.

Og því miður fyrir Vestfirði þá sýnist mér að NE sé að takast að fá sitt í gegn. 

En þetta seinkar örugglega e-h þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru í samgöngumálum fyrir Vestan.

Í þessu máli, er það ekki þéttbýlið sem er að beita sér gegn hagsmunum vestfirðinga, heldur landshornið fyrir Norð-Austan.

Það flækir aðeins málið, því þá úr lögum við hverja ættu Vestfirðingar að segja sér?

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 1.4.2012 kl. 20:29

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Einar.

Það er engin barátta milli landshluta.  Ég reikna með að vanþekking búi að baki þessari fullyrðingu þinni.  Á sínum tíma þegar Norðfjarðargöng voru komin efst i goggunaröðina, í fyrsta skiptið af þremur, þá myndaðist sátt í kjölfar alvörunnar fyrir vestan, að göngin sem tengdu Ísafjörð við nágrannasveitarfélögin, færu framfyrir.  

Þetta var uppúr 1990 að mig minnir.  

Þessi ákvörðun, að flýta Vestfjarðargöngum, var ekki svíning spillingar á eðlilegri stjórnsýslu, heldur var samkomulag um hana milli fólks sem hafði þroska til að breyta fyrri ákvörðun vegna breyttra aðstæðna.

Vestfirðingar hafa ekki gleymt þessari sátt og í kjölfar stjórnsýsluspillingarinnar sem mér sýnist að þú hafir fallið í þá gryfju að reyna að verja, þá kom yfirlýsing frá þremur bæjarstjórum á Vestfjöðrum sem greint var frá á Mbl.is.

„Við undirritaðir bæjarstjórar þriggja sveitarfélaga á Vestfjörðum tökum undir kröfur Austfirðinga um að byggingu Norðfjarðarganga verði flýtt og við hvetjum stjórnvöld til að finna leiðir til að hefja þar framkvæmdir strax á næsta ári.

Við Vestfirðingar þekkjum það betur en flestir aðrir landsmenn hversu nauðsynlegt það er að samgöngur milli byggðarlaga séu öruggar.

Við minnum einnig á nauðsyn þess að tengja saman byggðarlög á Vestfjörðum með Dýrafjarðargöngum. Slíkar vegbætur þurfa að koma strax í kjölfar Norðfjarðarganga.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Elías Jónatansson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar."

Það er þannig Einar, þó þeir sem hagsmuna hafa af þjóðfélagi spillingar og valdapots reyni að telja okkur í trú um að óupplýst fólk búi úti á landi sem geti ekki hugsað heila hugsun, að þá er það ekki þannig.  Fólk þekkir alveg muninn á réttu og röngu og nær alveg þokkalegri sátt um sín mál.  Það er líka staðreynd að mjög mörgum Akureyringum ofbýður spillingin eftir að flett var ofan af exelæfingum Möllers nefndarinnar.  

Fólk vill rétta og heiðarlega stjórnsýslu.

Síðan veistu Einar að rökin þín um atvinnusvæði halda ekki vatni.  Það hefur ekkert gerst í atvinnumálum þarna fyrir norðan sem réttlætir þessi göng núna, þó vissulega eigi að bora þar, og það sem fyrst, því göng eru samgöngutæki 21. aldar og í kjölfar þeirra fylgir aðeins velmegun og blómstrandi mannlíf.  

Hér fyrir austan var hins vegar reist álverkssmiðja sem er að daga uppi vegna lélegra samgangna.  Íbúar Reyðarfjarðar manna ekki verksmiðjuna og vetrarsamgöngur hér fyrir austan eru þannig að þær eru ekki boðlegar fólki sem sækir vinnu daglega á milli staða.  Og sá vandi verður aðeins leystur með göngum, ekki aðeins Norðfjarðargöngum heldur hinum svokölluðum Samgöngum sem eru göng milli fjarðanna og svo ein uppí Hérað.  Fjarðaheiðargöngin eru rugl, heiðin er það stór.  Samgöngin leysa vanda Seyðfirðinga og um leið er heildarkostnaður samgöngubóta miklu lægri.

Það er ekki þannig að þetta sé ef-dæmi Einar, þetta er raunveruleiki.

Á síðasta ári kom 28% af útflutningi landsins frá Fjarðabyggð einni.  

Eyjafjarðasvæðið flytur ekki svona mikið út.  Samgöngur þar eru ekki að hamla atvinnusköpun, samgöngur fyrir austan gera það.  Samgöngur fyrir norðan eru ekki taldar til hættulegustu vega landsins en hér fyrir austan eru þær það.  Og ég get vitnað í úttekt sem sannar það.

Aðeins ein röksemd stendur eftir Einar, og það er stærð byggðarkjarnanna.  En ef þú svínar endalaust á fólki í smærri byggðum, þá rís það upp.  

Slík átök er ekki það sem þjóðin þarf í dag.

Og allra síst þurfum við að þeir sem hafa barist gegn spillingu og óskilvirku stjórnkerfi, að þeir mæri spillingu, hvort sem það var óvart eða ????

Ég veit það ekki Einar, ég skil ekki þessa nálgun þína en ég hef allavega útskýrt mitt mál.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.4.2012 kl. 21:04

5 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ómar - ég er eiginlega bara áhorfandi að þessu. Bý í Reykjavík. Maður sér að þingmenn eru að pota þessu verki í gegn, þvert á samgönguáætlun.

Og ég skil mæta vel, að það muni líklega skapa pyrring á öðrum svæðum.

Þegar ég segi að þessi göng séu líklega hagkvæm, er ég ekki að kasta mati á önnur göng, hvort þau séu hagkvæm.

Það er augljóslega hagkvæmt að sameina Austurland í eitt atvinnusvæði, með gangagerð. Fjarðarheiðargöng væri mjög góð sýnist mér að opna heilsársveg fyrir útflutningshöfnina við Seyðisfjörð. Byggja Seyðisfjörð upp sem inn-/útflutningshöfn fyrir svæðið fyrir austan.

Norðfjarðargöng eru örugglega mjög góður hlutur.

Sennilega væri heppilegra fyrir frið milli svæða, að göngin um Vaðlaheiði myndu bíða um nokkur ár a.m.k., að göng undir Fjarðarheiði og Norðfjarðargöng væru tekin fyrst.

Síðan mættu Vaðlaheiðargöng koma þar á eftir, svo Eyjafjarðarsvæðið myndi tengjast við útflutningshöfnina fyrir Austan.

Þetta er að sjálfsögðu frekja í Norðlendingum að þröngva sínum göngum með þessum hætti í gegn fram fyrir alla hina.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 1.4.2012 kl. 21:37

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Nei, Einar það er spilling.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 1.4.2012 kl. 22:34

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Um bloggið

Einar Björn Bjarnason

Höfundur

Einar Björn Bjarnason
Einar Björn Bjarnason
Stjórnmála- og Evrópufræðingur. Áhugi á stjórnmálum, Evrópumálum, alþjóðamálum, málefnum Miðausturlanda, trúmálum, vísindum og tækni, og margt fleira.
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Eldri færslur

2025

2024

2023

2022

2021

2020

2019

2018

2017

2016

2015

2014

2013

2012

2011

2010

2009

2008

Nýjustu myndir

  • Mynd Trump Fylgi
  • Kína mynd 2
  • Kína mynd 1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 859313

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 33
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband