Tvískinnungur hjá forsetanum að undirrita fjölmiðlalögin? Af hverju styð ég þjóðaratkvæðagreiðslufyrirkomulag?

Ég er almennt séð stuðningamaður þess, að stór mál fari fyrir þjóðina.

Ef við berum saman þau skipti sem forsetinn ákvað að vísa máli til þjóðar, þ.e. fjölmiðlalög hin fyrri, Svavarssamningur og síðan Icesave3.

  • Þá bárust forsetanum í öllum tilvikum ekki færri en 30.000 undirskriftir.
  • Í þetta sinn, var forsetinn einungis með 4000 undirskriftir.

Þannig, að þarna vantar að til staðar sé það rof milli þings og þjóðar, sem Ólafur Ragnar Grímsson, vísaði til þau hin skiptin, sem réttlæting þess að beita neitunarvaldi forseta gegn vilja þjóðkjörins þings, vald sem hann hefur skv. 26. grein Stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands.

Sjá frétt: Forsetinn hefur staðfest fjölmiðlalögin

Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands

" 26. gr. Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu."

 

  • Ég get ekki séð, að forsetinn hafi haft val um annað en að undirrita þessi fjölmiðlalög hin seinni, þegar hann hafði ekkert í höndunum, sem staðfesti gjá milli þings og þjóðar í því máli!
  • En að sjálfsögðu má ákvörðun forseta ekki vera tilviljanakennd, heldur verður hún að lúta einhverri tiltekinni reglu - þ.s. 26. gr. inniheldur enga slíka, er það hver reglan er í valdi forseta.

 

Eftir því sem best verður séð, hefur Ólafur Ragnar einmitt sett sér reglu, þ.e. hún komi fram í því að í þeim tilvikum að hann hefur beitt synjunarvaldi forseta, hefur hann verið með í hendi a.m.k. 30.000 undirskriftir - yfirfarnar.

Eiríkur Bergmann hélt því fram að Ólafur Ragnar yrði að synja nýju fjölmiðlalögunum, sjá hlekk á bloggfærslu Eiríks Bergmann: Rökrétt að forseti synji seinni fjölmiðlalögum

 

Marínó G. Njálsson - benti einnig á eftirfarandi

Marinó G. Njálsson 22.4 2011 13:16: Munurinn á þessum lög og Icesave er, að búið er að kjósa nýtt þing í millitíðinni. Ekki einu sinni heldur tvisvar. Rökin hjá Ólafi vegna Icesave voru m.a. að um sama þing hafi verið að ræða. Hér er því ekki um neina hentistefnu að ræða. Auk þess fóru fyrri lög aldrei í þjóðaratkvæði, heldur sniðgengu Davíð og Halldór stjórnarskrána með því að draga lögin til baka.
 
  • Þetta er ágætur punktur hjá Marínó, hann svarar Eiríki Bergmann með því að 2. Alþingiskosningar hafi farið fram síðan, Ólafur synjaði Fjölmiðlalögum. 
  • Þegar Ólafur rökstuddi að löggjafarvaldið væri hjá þjóðinni eftir fyrri synjun hans á Icesave - er hann synjaði Icesave í annað sinn, þá var það á grundvelli þess að Alþingiskosningar hefðu ekki farið fram, og nýtt þing verið skipað með nýju umboði þjóðarinnar.
  • Síðan benti Ólafur á flr. þætti - að skýr andstaða þjóðar sé komin fram í þeim fj. undirskrifta er honum barst. Vísaði til að tillaga á Alþingi sjálfu um að vísa málinu í þjóðaratkvæði, hafi verið felld naumlega, þannig að klár vilji margra hafi verið fyrir hendi, meðal þings og þjóðar um að vísa málinu til afgreiðslu þjóðarinnar. En ef sú regla væri hér eins og í Danmörku, að 2/5 minnihluti þings geti vísað máli í þjóðaratkvæði, þá hefði þjóðaratkvæði verið knúið fram af nægilega stórum minnihluta þings, þarna síðast.

 

Af hverju vill ég þjóðaratkvæðagreiðslufyrirkomulag?

  • Á Íslandi vegna fámennis, verða þeir sem ráða innan stjm. flokka alltaf lítill hópur.
  • Sá hópur verður alltaf vegna nálægðarinnar í litlu samfélagi aðgengilegri þrýstihópum og hagsmuna-aðilum, en gerist og gengur hjá fjölmennari þjóðum.
  • Ég er að segja, að hér sé meiri hætta á því, að þrýstihópar með rýfleg fjárráð, öðlist óeðlileg ólýðræðisleg völd, í gegnum það að hafa áhrif á tiltekna lykil einstaklinga innan ráðandi flokka hverju sinni.
  • Ég bendi einnig á, að smæðarinnar vegna, eru flokkarnir yfirleitt veikar stofnanir, með fá innri tékk á völd og áhrif einstaklinga innan eigin raða.
  • Að auki, vegna smæðarinnar, veikra innviða flokka, þá hafa flokkarnir ekki nægan aðgang að sérfræði þekkingu meðal eigin flokksmanna, til að undirbúa mál af kostgæfni - sem hefur oft gert þá háða þrýstihópum sem vinna að forgangi tiltekinna hagsmunamála, um undirbúning mála.
  • Þróunin hefur nánast verið þannig, að tilteknir flokkar hafa tiltekna þrýstihópa sem bakhjarla, sem veita þeim fjárhagsaðstoð og aðgang að sérfræðiþekkingu, en gegn því að hafa mjög mikið að segja um - hvaða mál fá forgang innan viðkomandi flokks.
  • Á sama tíma, þíðir fámennið einnig, að eftirlitsstofnanir verða alltaf veikar, erfitt að tryggja að þeir sem þar vinna, séu ekki í óeðlilegum tengslum - með öðrum orðum, að óháðar eftirlitsstofnanir raunverulega séu óháðar.


Stofnanauppbygging og fulltrúalýðræðis hérlendis, fámennis vegna, er því dæmd til að vera alltaf tiltölulega veik og óskilvirk!

Skilningur á þessu hefur vantað í umræðuna, þ.e. að fámennið sé sjálfstætt vandamál!

Hinn bóginn er til leið sem getur virkað alveg sérdeilis vel hér, einmitt fámennisins vegna!

Þjóðaratkvæðagreiðslu fyrirkomulag, er hugsanleg leið á Íslandi, til að leysa tiltekin vanda sem fámennið skapar!

  • Með því, að sú regla gildi að 30.000 manns - ef við miðum við óopinbert viðmið Ólafs Ragnars - geti alltaf knúið fram almenna atkvæðagreiðslu um þingmál, þá um leið hefur þjóðin möguleika til þess að koma í veg fyrir, að fámennir hagsmunahópar í gegnum það að hafa náð tímabundið tangarhaldi á Alþingi; geti með raun ólýðræðislegum hætti knúið fram breytingar á lögum og fyrirkomulagi hluta hérlendis, eða framtíðarstefnu þjóðarinnar, sem er þeim hagsmunahópi í hag en ekki endilega meirihluta þjóðar.
  • Ég er ekki á því, að þetta muni leiða til atkvæðagreiðsla um nánast öll mál eða í tíma og ótíma:
  1. Það eitt, að aðilar vita að þjóðin getur knúið mál í almenna atkvæðagreiðlsu, mun hafa áhrif á hegðun ráðandi afla hverju sinni, eftir því sem frá líður og menn læra betur að starfa með fyrirkomulagið yfir sér.
  2. Ég á við, að í framtíðinni þegar þeir skynja að öflug andstaða er að skapast gegn máli sem þeir hafa áhuga á að knýja fram eða gegn breytingu sem þeir vilja innleiða; þá skapist hvati hjá þeim um að leggja sig fram um að útskýra málið fyrir þjóðinni, vinna því fylgis. Með öðrum orðum, að stjórnmálamenn leggi sig far um að fá þjóðina á sitt band, tala við hana o.s.frv.
  3. Að auki tel ég, að þetta muni að auki auka líkur á því, að ráðandi aðilar leiti eftir víðtækri sátt um mál, þ.e. ræði við líklega andstöðu hópa fyrirfram og leitist við að ná fram málamiðlun, sem leiði til almennari sáttar um mál, í stað hatrammra deilna. 
  4. Eftir því sem aðilar venjast því að búa við möguleikann á þjóðaratkvæðagreiðslum, fækki þeim eftir því sem stjórnmál þróast yfir í, samræðu og umræðustjórnmál - í stað átaka og yfirkeyrslu stjórnmála.
  • Þetta lít ég á sem jákvæðar breytingar. Ég lít sem sagt á, að þjóðaratkvæðagreiðslufyrirkomulag, muni smám saman draga úr átökum, skapa friðsamari umræðu um mál og málefni, minnka ófrið og átök í samfélaginu; leiða smám saman fram á ný það rólega og friðsama samfélag sem við viljum hafa.
  • Að auki held ég að þetta dragi úr pólitískri spillingu, því líkur minnka á því að fjársterkir aðilar geti keypt tiltekna lykileinstaklinga innan flokka, og nýtt þá til að koma í gegn lagabreytingum þeim sjálfum eða fyrirtækjum í þeirra eigu til framdráttar, en ekki endilega þjóðinni.
  • Stjórnmálamenn verði ekki lengur eins áhugaverður peningur í augum fjársterkra aðila, sem muni ekki hafa val um annað en að beita sér á almennum vettvangi í staðinn, með því að kaupa t.d. auglýsingar fyrir sínum persónulegu baráttumálum eða hagsmunum síns fyrirtækis. Það verði einfaldlega allt í lagi! En fjársterkir aðilar hafa sama rétt og aðrir.
  • Að þeir beita sér í staðinn opinberlega, þíðir þá að þá liggur fyrir hvað þeir vilja, og ef þjóðin velur að fylgja þeirra sjónarmiðum, er í sjálfu sér ekkert við það að athuga. En, það sé einmitt þannig sem hlutir eiga að vera uppi á borði en ekki bakvið einhver tjöld, í bakherbergjum.
  • Ég bendi á að þjóðaratkvæðagreiðslufyrirkomulag hefur ekki leitt til átak í Sviss, heldur þvert á móti dregið úr þeim - eins og ég útskýri.
  • Þeir sem tapa fyrst og fremst, eru hagsmunaaðilar sem fara fyrir þröngum hagsmunum, sem missa þann möguleika að geta keypt sér flokka og/eða stjórnmálamenn, og knúið mál fram í trássi við almenning.
  • Stjórnmálin leita í átt að hinni friðsömu miðju!

 

Til að styrkja áhrifin enn frekar!

Setja upp formlegt samráðsferli:

  • Ef sett er upp af svissneskri fyrirmynd, samráðsferli sem virkar þannig að þegar nægur fj. undirskrifta hefur safnast, þá beri aðilum skilda til að gera tilraun til að ná sátt sín á milli - þá á ég við þá sem fara fyrir hópnum sem safnaði undirskriftum annars vegar og hins vegar þá sem eru í ríkisstjórn eða með meirihluta á Alþingi hins vegar.
  • Gefinn er tiltekinn tími fyrir slíkar sáttaumleitanir, má jafnvel hafa sáttasemjara ríkisins sem milligönguaðila; þá getur eins og þannig fyrirkomulag virkar í Sviss, mál endað í sátt milli aðila án þess að atkvæðagreiðsla fari fram eftir allt saman.
  • Slíkt sáttafyrirkomulag, var sett upp í Sviss, til að lágmarka fj. þjóðaratkvæðagreiðsla, efla hvatann til sáttaumleitana milli aðila, og síðan þá eru þær í reynd sjaldgæfar.

Ef sátt næst ekki - þá fer atkvæðagreiðsla fram.

Eðlilegt væri að aðilar er söfnuðu undirskriftum, þurfi að kynna sátt fyrir þeim sem skrifuðu undir lista, að þeir fái til þess tilekinn lágmarkstíma, að ef ef viðbrögð við sátt eru meirihluta til neikvæð - slík atkvæðagreiðsla meðal hópsins er rétt að hafa á netinu; þá fari almenn atkvæðagreiðsla fram.


Niðurstaða

Ég tek að Ólafur Ragnar hafi ekki átt það sem raunverulegann valkost, að neita nýjum fjölmiðlalögum staðfestingar. En, benda má á að skv. frétt tók hann sér umþóttunartíma sbr. Alþingi afgreiðir lögin þann 15. apríl sl. en tilkynning í Stjórnartíðindum um staðfestingu Ólafs er dagsett þann 20. apríl sl. 

Ég lít einnig á, að ákvörðun Ólafs Ragnar sé í samræmi við fyrri ákvarðanir og útgefna röksemdafærslu við fyrri ákvörðunum, er hann tók ákvörðun um synjun staðfestingar eins og frægt er.

-------------------

Ég tel að upptaka þjóðaratkvæðagreiðslu fyrirkomulags, sé leið til að laga mjög marga bresti sem upp hafa komið við okkar lýðræðisfyrirkomulag.

Ég lít reyndar svo á, að sú breyting ein og sér muni laga nokkurn veginn megnið af þeim brestum, m.a. að sú breyting muni slá mikið á þá spillingu sem fram hefur komið og lengi hefur viðgengist, og ekki þurfa umtalsverðar róttækar breytingar til aðrar.

Þetta sé alger lykilbreyting!

 

Kv.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Ágústsdóttir

Þjóðaratkvæðagreiðslur þurfa að vera hjá vel upplýstri þjóð, sem ég tel Íslendinga vera

En eins og kemur fram um vanda Svisslendinga við almennar kostningar, sem voru orðnar alltof margar þá þarf að finna leiðir til aö takmarka þær t.d. þannig 1.Að málið sé mjög umdeilt í opinni umræðu hjá þjóðinni.2.Að tiltekinn fjöldi þurfi að taka þátt í kostningunum til að þær gildi.3.Að krafan um þjóðaratkvæðagreiðslur séu ítarlega skilgreindar í stjórnarskrá þjóðarinnar og þannig að framkvæmd kostninganna geti ekki orkað tvímælis.

Lára Ágústsdóttir, 22.4.2011 kl. 17:50

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég held nú að ómögulegt sé að ná 30.000 undirskriftum, nema að mál sé búið að ná athygli fjöldans. Að, einungis náðust 4000 nú sýni, að ekki tókst að skapa þá víðtæku athygli og umræðu, sem þarf til að svo margir fáist til að undirrita með nafni og kennitölu, slíkann lista af undirskriftum.

Samráðsferli sem ég nefni að ofan, ætti að takmarka fj. atkvæðagreiðsla, auk þess að stjórnmál ættu að laga sig að því nýja umhverfi, og hið nýja fyrirkomulag ætti framkalla hvata fyrir ráðamenn til að leita að sem víðtækustu sátt um mál.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 22.4.2011 kl. 18:13

3 Smámynd: Lára Ágústsdóttir

Annað varðandi þjóðaratkvæðagreiðslur er að örugglaga innan skamms tíma verður farið að nota rafræna tækni við kostningar, og það gjörbreitir öllu varðandi þær.Ég held að innan 10 ára verði allar kostningar framkvæmdar með rafrænum hætti.Þá verða notuð kostningakort svipuð og bankakort, gefin út af þjóðhagsstofu íslands á kennitölu hvers kjósanda og kominn upp kostningakassi um allt þar sem hægt verður að kjósa.þá verður komið í nýju stjórnarskrána nákvæm ákvæði um kvað á að kjósa, hvernig skal kjósa og kvenær skal kjósa, því þá kosta kostningar ekki neitt.

Lára Ágústsdóttir, 22.4.2011 kl. 22:08

4 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ekki slæm hugmynd. Getum alveg búið til slík skilríki strax, en fyrir helgi náði ég í nýtt debitkort með örgjörva, sem þannig er orðið að gildi rafrænu skilríki. Því fylgir sérstakt lykilnúmer, ef ég kaupi eitthvað á netinu hér innanlands. Þú þarf þá að setja það í kortaskanna í eigin tölvu eða skanna sem hægt er að fá við hana, hver veit - sé í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að þau rafrænu debitkort séu alveg fullkomlega nothæf, sem kosningakort þannig að þú greiðir atkvæði heima, hafir kortið í skannanum og setjir þitt eigið lykilnúmer við þegar þú greiðir atkvæði.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 22.4.2011 kl. 23:06

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Um bloggið

Einar Björn Bjarnason

Höfundur

Einar Björn Bjarnason
Einar Björn Bjarnason
Stjórnmála- og Evrópufræðingur. Áhugi á stjórnmálum, Evrópumálum, alþjóðamálum, málefnum Miðausturlanda, trúmálum, vísindum og tækni, og margt fleira.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Eldri færslur

2024

2023

2022

2021

2020

2019

2018

2017

2016

2015

2014

2013

2012

2011

2010

2009

2008

Nýjustu myndir

  • Mynd Trump Fylgi
  • Kína mynd 2
  • Kína mynd 1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband