Við verðum að lækka fjármögnunarkostnað í krónuhagkerfinu!

Það er gríðarlega alvarlegt mál, ef ekki tekst að lækka þá raunvexti er bjóðast á Íslandi til útlána, úr þeim cirka 6% eins og nú er, og verið hefur sl. 10-15 ár.

 

Lykilatriði í sjálfbærni innlends peningahagkerfis

Ég er þess fullviss, að þetta er ástæða þeirrar miklu og stöðugu eftirspurnar sem er hér innanlands, eftir erlendu lánsfé - þannig að ef ekki tekst að lækka þennan kostnað þá er hætta á því, að sagan frá sl. áratug endurtaki sig, er höftum er aflétt og hagvöxtur kemst af stað.

Þá á ég við, að fyrirtæki sæki sér lánsfé í miklum mæli erlendis frá, og eftir því sem hagvöxtur kemst frekar á legg þá aukist hraðinn á þeirri gjaldeyris-skuldauppsöfnun hagkerfisins; þar til - segjum áratug seinna, endurtaki sagan sig er næst dynur efnahagslegt áfall yfir og lán stórhækki í verði í krónum talið - ný skuldakreppa eigi sér stað.

  • Í reynd má segja, að svo lengi sem þetta ástand viðhelst, sé í reynd einungis hægt að fjárfesta í því sem eigi að skapa gjaldeyri - það verður að vera lærdómur sl. áratugar.
  • Að vísu, er þörf á auknum útflutningi - þannig að slíkt kemur ef til vill ekki alvarlega að sök fyrsta kastið.

En, fyrir aðra aðila, þá sem ætla sér að eiga viðskipti innanlands og selja til Íslendinga sjálfra - þá er þetta stóralvarlegt mál!

  • Mig grunar, að þessi óskaplegi fjármagnskostnaður sé jafnvel meginástæða hins mjög svo tíða kennitöluflakks er viðgengst meðal viðskipaaðila á innanlandsmarkaði.

En, aðilar bregðist við óviðráðanlegum fjármagnskostnaði með því að gera beinlínis út á gjaldþrot.

Þetta snúist ekki endilega um það að ísl. viðskiptaaðilar séu öðrum fremur óheiðarlegir, heldur um það að svo lengi, sem fjármögnunarkostnaður er svo óskaplega hár sem hann er, þá sé nánast ómögulegt að reka hér nokkurn skapaðann hlut á grundvelli lánsfjármögnunar í íslenskum krónum.

 

Á flokksþingi Framsóknarflokksins:

Því miður var tillaga mín felld, af aðilum sem mæltu tillögu minni mót.

En, ég lagði til að stefnt yrði að því að lækka raunvexti í boði til útlána hérlendis um allt að 2%.

Þetta er mjög vel gerlegt, ekki akkúrat í dag, heldur í tengslum við endurskoðun og hagræðingu innan lífeyriskerfisins annars vegar og hins vegar endurskoðun og hagræðingu innan bankakerfisins.

Það er nefnilega klárt, að lífeyrissjóðirnir hafa ekki sl. 20 ár verið að fá 3,5% raunávöxtun - eftir óskapleg töp þau er þeir hafa orðið fyrir. Í reynd er raunávöxtunarkvöðin sem byggð er inn í kerfið, ósjálfbær með öllu fyrir okkar litla hagkerfi. Að auki, er klárt að eftir gríðarlegt tap við hrunið vantar stórfé í kerfið, svo það í reynd eigi fyrir skuldbindingum.

Vandinn er sá við raunávöxtunarkröfuna, að hún sjálf skapar hættu á stórfelldum töpum, því þá eru sjóðirnir bundnir við að kaupa áhættusöm hlutabréf - víxla og önnur verðbréf, ásamt skuldabréfum - sem bjóða þá ávöxtun að lágmarki. En, þumalfingursrelga er að því hærri ávöxtun því meiri hætta á tapi.

Þetta er þveröfug stefna þeirri sem gildir sem dæmi um evrópska lífeyrissjóði, sem almennt er einungis heimilt að fjárfesta í "A-rated" skuldabréfum þ.e. gefnum út af aðilum er hafa fyllsta traust. Vanalega fylgist að, að traustir aðilar vegna þess að þeir njóta trausts býðst lág ávöxtunarkrafa á markaði - þannig að vanalega helst það í hendur að bréf traustustu aðilanna bjóða lægstu vaxtakröfuna. En, í Evrópu gildir vanalega sú regla, að Þegar aðilar sem njóta fyllsta trausts verða fyrir áfalli þannig, að þeirra traust hrapar úr A flokki og um leið þeirra bréf, þá eru sjóðir skildugir til að selja slík minna traust bréf hið fyrsta. Þannig gerðist það sem dæmi, að ein ástæða þess hve hratt virði hluta okkar banka hrundi er hrun nálgaðist var þegar erlendir lífeyrissjóðir seldu skuldabréf þeirra á einu bretti, þaða sama hefur gerst með ríki innan Evrusvæðis sem lent hafa í vanda að um leið og þau missa A flokks stimpilinn þá hækkar vaxtakrafan hratt þegar sjóðir selja unnvörpum. Þetta hafa nefnilega ekki almennt verið vondir vogunarsjóðir, heldur lífeyrissjóðir bundnir af þeirri reglu að vera einungis heimilt að eiga bréf, sem teljast örugg. 

Þetta er einmitt regla sem ég vil koma á hér, en til þess að það sé mögulegt þá þarf ávöxtunarkrafan að lækka á lífeyrissjóðunum, niður í cirka 2% úr 3,5%. Þá, munu þeir geta fjármagnað sig, á mun áhættuminni fjárfestingum - þannig að stórfelld töp yrðu mjög sjaldgæfir atburðir.

Að auki bætist við, að þessi ávöxtunarkrafa er einnig sjálfbær, mun meira svo en 3,5% krafan - því það beinlínis krefst þess að viðhaldið sé hér að lágmarki 3,5% meðalhagvexti - sem einfaldlega hefur ekki tekist síðustu 20 ár, þegar hrun er tekið með í reikninginn.

Á hinn bóginn, er alveg raunhæft að viðhalda hér a.m.k. 2% meðalhagvexti áratug frá áratug.

Þannig er komið 1,5% af þeim allt að 2% sem ég var að tala um.

Restin, þ.e. allt að 0,5% ætti mjög vel vera gerlegt að ná með hagræðingu í bankakerfinu, enda er það að umfangi fullkomlega ósjálfbært og verður - verður að skera niður; m.a. til þess að unnt verði að afnema höftin.

 

Hvað fæst með þessu?

  • Það verður hægt að fjárfesta með innlendu lánsfé - án þess að vera nær öruggur með að fara á hausinn.
  • Þetta ætti að stuðla að siðbót innan atvinnulífsins - því með þessu ætti hvatinn til kennitöluflakks að minnka mikið.
  • Töpum almennt séð, vegna tíðra gjaldþrota, ætti að fækka mikið og kostnaður vegna slíkra að minnka.
  • Fjárfestingar aukast og meiri atvinna er sköpuð - fleiri fyrirtæki lifa í stað þess að hrynja; sem leggst allt á eitt með að auka hagvöxt.
  • Almenningur og fyrirtæki, geta endurfjármagnað lán í ódýrari - um ef til vill allt að 2% raunávöxtunarlækkun.
  • Minnkar óskapleg ásókn í erlent lánsfé sem svo varasöm hefur reynst vera.
  • Dregur úr þrýstingi frá atvinnulífinu um það, að skipta um gjaldmiðil. 

 

Niðurstaða

Ég skil alveg að þær breitingar sem ég er að tala um, eru pólitískt séð að mörgu leiti erfiðar og viðkvæmar í framkvæmd. En, margir munu horfa til tapaðs lífeyris miðað við núverandi ósjálfbær loforð ef réttindi eru skert niður í það sem sjóðirnir í raun geta borgað án þess að setja sjálfa sig á hausinn og jafnvel landið í leiðinni.

En, eins og kerfið er, þá er í því innbyggð sprengja - sem á eftir að springa yfir okkur ef það púður er ekki fjarlægt.

Kerfið getur einfaldlega hrunið - og Ísland lent í mjög alvarlegu kerfishruni; enn verri málum en þeim sem við erum stödd í - í dag.

En, það er ekki of seint í dag, að koma í veg fyrir slík fyrn. Með því, að sætta sig við lækkun réttinda niður í þau sem landið og kerfið raunverulega hefur efni á að borga; þá eru lífeyrisþegar ekki raunverulega að tapa - því á móti í dag eru þeir að taka áhættuna á því að einn daginn detti kerfið svo rækilega um koll að lífeyrisgreiðslur hverfi að mestu.

Ef sú aðlögun niður í sjálfbært ástand er framkvæmd, ásamt niðurskurði í bankakerfinu; þá vinnst þessi lækkun raunfjármagnskostnaðar í krónuhagkerfinu, sem verður einn mikilvægasti þáttur þess að tryggja framtíðar stöðugleika innlends hag- og peningakerfis, þjóðinni til framdráttar og betri lífskjara.

 

Kv.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Um bloggið

Einar Björn Bjarnason

Höfundur

Einar Björn Bjarnason
Einar Björn Bjarnason
Stjórnmála- og Evrópufræðingur. Áhugi á stjórnmálum, Evrópumálum, alþjóðamálum, málefnum Miðausturlanda, trúmálum, vísindum og tækni, og margt fleira.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Eldri færslur

2024

2023

2022

2021

2020

2019

2018

2017

2016

2015

2014

2013

2012

2011

2010

2009

2008

Nýjustu myndir

  • Mynd Trump Fylgi
  • Kína mynd 2
  • Kína mynd 1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 856011

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband