Voru 400 milljónirnar fyrir bjórverksmiðjuna í Rússlandi "BLÖFF"?

einar_bjorn_bjarnason-1_884856.jpgReynir Traustason, skrifaði ágæta ritstjórnargrein í DV þann 22. júlí síðast liðinn, um "Bjórpeninga Björgólfa", þ.s. hann veltir því upp, hvort að 400 milljón Dollararnir, sem bjórverksmiðja Björgólfsfeðga í Rússlandi á að hafa verið seld fyrir til Heineken, hafi verið plat. 

Eins og er þekkt, skiptu þessir meintu peningar miklu máli, þegar deilt var um hverjum átti að selja Landsbankann á sínum tíma. Tilboð Björgólfsfeðga, var alls ekki hæsta tilboðið, og þegar deilur stóðu uppi um hvort tilboðið átti að taka, þá var því haldið fram, af ráðamönnum, að tilboð þeirra feðga væri í reynd betra, vegna þeirra meintu peninga í erlendum gjaldeyri, sem til stæði að þeir kæmu með inn í landið.

Æ síðan, hafa Björgólfar, hampað því að þeir hafi komið færandi hendi, með háar fjárhæðir inn í landið. Þó, að á allra síðustu tímum, hafi heldur kárnað gamanið, eftir að Landsbankinn breittist í þeirra höndum, í nokkurs konar fjárhagslegt svarthol, sem allt virðist vera að gleipa.

 

Fengu Björgólfsfeðgar milljónirnar 400, fyrir Bjórverksmiðjuna?

  • Ég held að Heineken, hafi borgað þessa upphæð, enda er hægt að tékka á því í bókhaldi fyrirtækisins. Hef þó ekki, framkvæmt þá aðgerð, að tékka á þessu.
  • Það þýðir þó ekki endilega, að Björgólfsfeðgar, hafi fengið þá peninga í hendur.
  • Líklega, hafa þeir þurft að borga rússnesku mafíunni, háar upphæðir í verndargjöld. Hugsanlega, hefur bróðurpartur þessarar upphæðar, farið í að borga sig lausa undan því liði.
  • Vitað var, að á þessum árum í Rússlandi, gat enginn gert viðskipti, nema mjög öglug og stöndug fyrirtæki er gátu haldið uppi eigin einkaher, nema að gera samninga við mafíuna, um að borga þeim ákveðinn hagnaðarhlut, til að fá að starfa í friði.

Þannig, að 400 milljónirnar gætu hafa verið blöff, ekki þannig, að þeir peningar hafi aldrei orðið til, heldur þannig að Björgólfsfeðgar hafi aldrei fengið nema lítinn hluta þeirrar upphæðar í eigin hendur.

 

Kv.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrirgefðu en þetta er svolítið langt!

Er “kvótahopp” vandamál í Evrópu-sambandinu?
29.11.2000
Höfundur: Úlfar Hauksson
Fiskveiðar eru meðal elstu athafna mannsins og eina atvinnugreinin sem byggist á veiðimennsku sem er enn stunduð í umtalsverðum mæli með viðskiptasjónarmið í huga. Fiskveiðar í heiminum tóku miklum framförum um miðja öldina og varð um 7% árleg aflaaukning frá 1950 til ársins 1970. Á áttunda áratugnum dró verulega úr vextinum sem hrapði niður í um 1-2% á ári og í upphafi þess níunda náði heimsaflinn hámarki; fór í um 100 milljónir tonna. Endimörkum vaxtarins var náð og telja sérfræðingar á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) að fiskveiðar hafi víða hætt að vera sjálfbærar um 1980. Nú er svo komið að flest þeirra 200 veiðisvæða, sem FAO hefur eftirlit með, eru fullnýtt eða ofnýtt.
Ásókn í gjöful fiskimið voru lítil sem engin takmörk sett til ársins 1976 en fram að þeim tíma voru flest fiskimið öllum opin. Löngu var ljóst að mikil ofveiði átti sér stað og fóru strandríki að leita hófanna um að færa út fiskveiðilögsögu sína og afmarka þannig eignarétt sinn yfir fiskimiðunum. Á seinni hluta áttunda áratugarins var þróun í hafréttarmálum mjög hröð og segja má að 200 mílna efnahagslögsaga hafi orðið viðtekin venja frá árinu 1976 þó að slíkt hafi ekki fengist staðfest fyrr en á þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 1982
Nú er svo komið að um 40% af heimshöfunum hefur verið skipt upp á milli strandríkja. Á þeim rúmlega 20 árum, sem liðin eru frá viðtekinni 200 mílna efnahagslögsögu, hefur ofveiði samt víða verið meiri en nokkru sinni fyrr. Þetta á sér nokkrar skýringar: Þótt lögsaga ríkja yfir miðunum hafi verið mikilvægt skref í þá átt að afmarka eignar- og nýtingarrétt á fiskstofnunum var það engan veginn nóg því að stjórnvöld vanræktu að setja leikreglur fyrir veiðarnar innan eigin lögsögu. Sú staðreynd, að margir fiskistofnar virða ekki lögsögu ríkja, veldur enn meiri vanda. Fiskistofnarnir eru sameiginleg, viðkvæm auðlind og veiðum úr þeim þarf að stjórna eigi þeir að viðhalda sér. Það er hins vegar hápólitískt úrlausnarefni hvernig ber að ná því markmiði og það snýst um „hver fær hvað, hvenær og hvernig.“ Miklir hagsmunir eru í húfi og ná oft út fyrir landamæri og lögsögu þjóðríkja. Evrópusambandið er lýsandi dæmi um slíkt.

„Kvótahopp“ – ágreiningur um aðgang að fiskimiðum
Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins hefur verið umdeild frá upphafi. Samt sem áður er nokkuð góð samstaða innan ESB um að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem byggist á hámarksafla og ríkjakvótum sem ríkin úthluta eftir eigin höfði, sé það besta sem völ er á við þær aðstæður sem eru ríkjandi í Evrópusambandinu. Samstaða er einnig um að kerfið verði að bæta.
Ríkjakvótarnir byggjast á svokölluðum hlutfallslegum stöðugleika. Hlutfallslegi stöðugleikinn er hryggjarstykkið í sjávarútvegsstefnunni og tryggir ríkjunum tiltekna fasta aflahlutdeild í þeim tegundum sem ákvörðun um hámarksafla er tekin. Hlutdeildin ræðst af veiðireynslu og mikilvægis sjávarútvegs. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika var tekin upp árið 1983 og var mikilvægt skref fram á við í fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins. Vonir voru bundnar við að þessi aðferð kæmi í veg fyrir deilur milli ríkja um skiptingu aflaheimilda. Í Evrópusambandinu er hins vegar réttur einstaklinga og fyrirtækja til fjárfestinga sterkur. Einstaklingum er ekki bannað að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum á grundvelli þjóðernis og fyrirtækjum er frjálst að afla sér fjármagns með sölu hlutabréfa. Af þessum sökum var hlutfallslega stöðugleikanum ógnað að margra mati þegar ríkisborgarar annarra aðildarríkja, einkum Spánverjar, keyptu bresk skip í þeim tilgangi að veiða úr hlutdeild Breta. Þetta fyrirbæri er kallað „kvótahopp“ þar sem fiskiskip undir breskum fána eru í eigu Spánverja, að mestu mönnuð Spánverjum og veiða úr breskum kvóta sem er að hluta landað á Spáni. Árið 1996 var áætlað að um 150 „kvótahopparar“ sigldu undir bresku flaggi (104 bresk/spænskir) og hefðu um 25% af kvóta Breta til umráða. Munar þar mestu um lýsing (hake) og skarkola (plaice) en um 45% af kvóta Breta í þessum tegundum eru á hendi „kvótahoppara“ um 35% af langhverfu (megrim) og 29% af skötusel. Í öðrum tegundum er hlutfallið mun minna.

Bretar bregðast við
Bretar hafa haldið því fram að „kvótahoppið“ sé í andstöðu við ákvæðið um hlutfallslegan stöðugleika. Árið 1988 settu þeir lög (the Merchant Shipping Act) sem áttu að stemma stigu við „kvótahoppi.“ Samkvæmt lögunum var ekki hægt að skrá fiskiskip undir breskum fána nema að sýnt væri fram á sterk efnahagsleg tengsl viðkomandi skips við bresk strandhéruð. Í lögunum voru mjög ströng ákvæði um þjóðerni og búsetu áhafna skipanna og eigenda og stjórnenda í landi. Að auki var í lögunum kvöð um að landa tilteknu magni af afla í breskum höfnum.
Þessi lög höfðu afdrifaríkar afleiðingar fyrir bresk útgerðarfyrirtæki í eigu Spánverja. Meirihluti þeirra uppfyllti ekki þessi skilyrði og skip þeirra fengu því ekki lengur úthlutað kvóta og urðu verkefnalaus. Spánverjum þóttu þessi lög ósanngjörn og töldu þau í andstöðu við sáttmála sambandsins sem kveður á um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis. Málinu var skotið til Evrópudómstólsins sem, eftir nokkuð löng málaferli, úrskurðaði bresku lögin ólög. Dómstóllinn staðfesti að lögin brytu í bága við grundvallarreglu sáttmálans sem kveður á um atvinnurétt einstaklinga innan sambandsins óháð þjóðerni. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu dómstólsins útilokaði hann ekki rétt strandríkja til að setja lög sem kveða á um efnahagsleg tengsl fiskiskips við fánaríki – þvert á móti. Tekið var undir sjónarmið Breta um mikilvægi þess að tryggja raunveruleg efnahagsleg tengsl milli fiskiskips og þess strandríkis sem úthlutar því veiðikvóta. Slík skilyrði mega hins vegar ekki mismuna aðilum á grundvelli þjóðernis og mega ekki fara út fyrir markmiðið sem þeim er ætlað – þ.e. að tryggja efnahagsleg tengsl skips við strandríki (the principle of proportionality). Lögin, sem Bretar settu árið 1988, fóru hins vegar langt út fyrir þetta markmið og því fór sem fór.

Ný lög um efnahagsleg tengsl
Á leiðtogafundinum, sem haldinn var í Amsterdam árið 1997, skiptust Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Jacques Santer, þáverandi forseti framkvæmdastjórnarinnar, á skoðunum varðandi „kvótahopp.“ Í bréfi dagsettu þann 17. júní árið 1997 kynnir Blair fyrir Santer tillögur Breta að nýjum lögum um efnahagsleg tengsl fiskiskips við fánaríki. Í bréfinu er óskað eftir því að framkvæmdastjórnin fari yfir tillögurnar og láti í té álit sitt á þeim aðgerðum sem Breta hyggjast grípa til í viðleitni sinni í að tryggja strandhéruðum, sérstaklega háðum sjávarútvegi, efnahagslegan ávinning af kvóta sem úthlutað er til skipa undir bresku flaggi.
Santer svaraði þessu á þá lund að sérhverju aðildarríki væri heimilt að setja fiskiskipum, sem sigla undir þeirra flaggi, tiltekin skilyrði fyrir kvótaúthlutun – skilyrðin yrðu hins vegar að vera í samræmi við sáttmála sambandsins. Tilgangur aflamarkskerfisins og ríkjakvótanna væri að vernda fiskistofna og tryggja hagsmuni strandhéraða. Í bréfi sínu heldur Santer áfram:
„[Á] grundvelli Evrópuréttar og að fenginni túlkun Evrópudómstólsins, má ráða að réttlætanlegt sé að sett séu ákveðin skilyrði sem tryggja raunveruleg efnahagsleg tengsl á milli fiskiskipa og fánaríkis þeirra ef markmið slíkra skilyrða er að íbúar sem háðir eru fiskveiðum og tengdum atvinnugreinum njóti kvótans. Skilyrði sem sett eru um efnahagsleg tengsl og ganga lengra en sem nemur þessum markmiðum verða hins vegar ekki réttlætt út frá grundvelli ríkjakvóta.“[1]
Hér er Santer að árétta að lögin um efnahagsleg tengsl mega ekki ná lengra – þ.e. fela í sér strangari skilyrði – en nauðsynlegt þykir (the principle of proportionality).
Í kjölfar bréfaskrifa Blairs og Santers á Amsterdam fundinum settu Bretar ný skilyrði fyrir skráningu fiskiskipa á Bretlandi. Þau kveða á um að skip verði að uppfylla a.m.k eitt eftirtalinna atriða til að geta fengið úthlutað kvóta í Bretlandi:
Að landa a.m.k helmingi af afla í breskri höfn
Að meirihluti áhafnar sé búsettur á Bretlandi
Að meirihluti veiðiferða séu stundaðar frá Bretlandi eða
að sýnt sé fram á efnahagsleg tengsl með öðrum hætti – t.d. með blöndu af þessum þremur skilyrðum.
Nýju lögin hafa verið í gildi frá 1. janúar 1999. Í skýrslu, sem unnin var af þingnefnd neðri deildar breska þingsins (Agriculture – Eighth Report, Select Committee on Agriculture) og gefin var út 27. júlí árið 1999, segir að of snemmt sé að meta áhrif laganna en „samt eru merki þess að kvótahoppsskipum hafi fækkað“ og „komi til með að fækka töluvert á næstu tveimur árum.“ Í þættinum Aldarhvörf, sem var á dagskrá Ríkissjónvarpsins þann 6. nóvember sl, staðfesti Elliot Morley, sjávarútvegsráðherra Bretlands, að „kvótahoppið“ sé alls ekkert vandamál í dag.

Gætu Íslendingar komið í veg fyrir „kvótahopp“ ef til aðildar kæmi?
Ef Íslendingar sækja um fulla aðild að Evrópusambandinu er ljóst að hlutfallslegi stöðugleikinn myndi tryggja að svo til allur sá kvóti, sem heimilt yrði að taka úr sjó við Ísland, félli okkur í skaut. Í norska aðildarsamningnum - frá 1994 - er meginreglan sú að aflahlutdeild ESB innan norskrar lögsögu og öfugt er byggð á sögulegri veiðireynslu áranna 1989 til 1993. Í samningnum er kveðið á um að samningsaðilar mega hvorki auka sókn í vannýtta stofna í lögsögu hvor annars, né auka veiðar á þeim tegundum sem ekki sæta ákvörðun um leyfilegan hámarksafla. Norðmönnum tókst því að tryggja svo til óbreytta stöðu mála gagnvart ESB frá því sem var í fiskveiðisamningnum í tengslum við EES-samkomulagið.
Norðmönnum var mikið í mun að tryggja að eignarhald á fiskveiðiheimildum yrði bundið við þegna viðkomandi aðildarríkis þannig að hlutfallslegu jafnvægi yrði ekki raskað með „kvótahoppi.“ Einungis norskir ríkisborgarar geta átt fiskiskip sem gerð eru út frá Noregi og vildu Norðmenn halda þessu fyrirkomulagi eftir inngöngu í ESB. Þetta stangast á við grundvallarreglu ESB sem bannar mismunun á grundvelli þjóðernis og var hafnað á þeirri forsendu. Í samningnum var gert ráð fyrir að Norðmenn fengju þriggja ára aðlögunartíma í þessum efnum og í sameiginlegri yfirlýsingu var áréttuð nauðsyn þess að tryggja hagsmuni þeirra svæða sem háð eru fiskveiðum. Með sameiginlegu yfirlýsingunni og áliti Evrópudómstólsins töldu Norðmenn tryggt að þeir gætu komið í veg fyrir „kvótahopp.“
Norðmenn, líkt og Bretar hafa gert með góðum árangri, hefðu því geta tryggt efnahagsleg tengsl fiskiskips undir norskum fána við Noreg með lögum og þannig komið í veg fyrir „kvótahopp.“ Að sjálfsögðu gætu Íslendingar gert slíkt hið sama ef til aðildar kæmi.
Í grein í Common Market Law Review, 32/1995 láta þeir Dierk Booss og John Forman, fulltrúar við lögfræðiþjónustu framkvæmdastjórnarinnar (the Legal Service, Commission of the EC.), í ljós þá skoðun sína að sumar greinar og yfirlýsingar í norska aðildarsamningum séu frábrugðnar fyrri aðildarsamningum og hefðu þær getað haft mótandi áhrif á þróun sjávarútvegsstefnunnar. Nefna þeir sem dæmi að sameiginleg yfirlýsing nr. 12 (Joint Declaration No. 12) um eignarhald á fiskiskipum sé, líkt og álit dómstólsins, opin. Það er ekki njörvað niður með hvaða hætti fiskiskip þurfi að sýna fram á efnahagsleg tengsl við fánaríki. Þvert á móti getur hvert ríki sett sín eigin lög allt eftir aðstæðum hverju sinni. Jafnframt benda þeir á grein 49 og sameiginlega yfirlýsingu nr. 10 í aðildarsamningnum. Þar er kveðið á um að eftir 30. júní 1998[2] yrði áfram byggt á því stjórnkerfi sem fyrir væri norðan 62°N og það fellt inn í sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna. Rökin voru þau að við inngöngu yrði Noregur eina strandríki ESB á þessu svæði. Gengju Íslendingar í Evrópusambandið má telja fullvíst, að teknu tilliti til reynslu Breta og Norðmanna, að „kvótahopp“ yrði ekki vandamál.

Nokkrar staðreyndir varðandi „kvótahopp“
Eins og fram hefur komið höfðu bresku lögin, sem sett voru árið 1988, afdrifaríkar afleiðingar fyrir bresk/spænsk útgerðarfyrirtæki. Það er nokkur kaldhæðni fólgin í því að þessi bresk/spænsku skip voru aðallega að falast eftir lýsingi og langhverfu; hvort tveggja mikils metnar tegundir á Spáni en Bretar hafa aftur á móti takmarkaðan áhuga á. Lýsingur er gríðarlega eftirsóttur á matarborði Spánverja og stendur fyrir um 70% af heildarfiskneyslu þeirra. Hann veiðist víða í fiskveiðilögsögum ríkja Evrópusambandsins og Spánverjar eiga, ólíkt Bretum, langa og ríka veiðihefð í þessari tegund. Þegar Evrópusambandið færði efnahagslögsögu sína út í 200 sjómílur, árið 1977, urðu Spánverjar að hverfa frá mörgum af sínum hefðbundnu lýsingsmiðum.[3] Til þess að komast á þessi hefðbundnu mið flögguðu Spánverjar skipum sínum út og undir breskan fána og öllum stóð á sama. Þetta var fyrir tíma kvótakerfis. Eftir 1983, þegar sjávarútvegsstefna ESB tók á sig þá mynd sem hún hefur í dag, þurftu Spánverjar að kaupa skip sem áður voru í eigu Breta. Flest þessara skipa lágu bundin við bryggju, með veiðileyfi, og eigendur þeirra úreltu þau ekki vegna þess að breska stjórnin neitaði að taka þátt í kostnaði því fylgjandi. Má því segja að „kvótahoppsvandi“ Breta hafi að hluta til verið heimatilbúinn. Það hefur hins vegar löngum þótt þægileg undankomuleið að kenna öðrum um órækt í eigin garði. Þannig hafa Bretar kennt Spánverjum um nánast allt sem miður hefur farið í breskum sjávarútvegi og sakað þá um að virða ekki leikreglur. Í skýrslu, sem unnin var af þingnefnd neðri deildar breska þingsins, kemur fram að þessar ásakanir séu ekki á rökum reistar heldur sé um að ræða reyfarakenndan sálfræðihernað af hálfu Breta. Í skýrslu um „kvótahopp“ sem unnin var við háskólann í Portsmouth kemur fram að öllum breskum skipum sé heimilt að sigla með afla. Árið 1996 var um 30 prósentum af kvóta Breta landað erlendis. Uppistaðan kom frá skipum sem ekki eru „kvótahopparar“ og einungis 3,5 prósentum var landað á Spáni! Það er því augljóst að „kvótahoppið“ er ekki ástæða þess að fiski er landað utan Bretlands. Skýrsluhöfundar komast að þeirri niðurstöðu að „kvótahoppið“ sé ekki efnahagslegt vandamál heldur sé um pólitískan og þjóðernislegan áróður að ræða.
Að ofansögðu er óhætt að fullyrða að „kvótahopp“ yrði ekki vandamál gerðust Íslendingar fullgildir aðilar að Evrópusambandinu. Jafnframt ber að leggja áherslu á að þróun sjávarútvegsstefnunnar sýnir ljóslega að engar reglur eru meitlaðar í stein. Stefnan hefur tekið breytingum og undanþágur hafa verið gerðar til að ná fram sáttum og koma til móts við ólíka hagsmuni aðildarríkja. Eins og kemur skýrt fram hjá talsmanni Evrópudómstólsins, Fernando Castello de la Torre, í áðurnefndum sjónvarpsþætti, á þetta við um allt sem snýr að Evrópusambandinu. Aðildarviðræður snúast um að finna klæðskerasaumaða lausn fyrir ríkið sem sækir um aðild. Markmiðið er ekki að grafa undan lífsviðurværi viðkomandi þjóðar – slíkt samrýmist ekki stefnu Evrópusambandsins sem byggir á sjálfviljugu samstarfi fullvalda og sjálfstæðra lýðræðisríkja.

Eftir Úlfar Hauksson
Greinin birtist í Ægi – tímariti fiskifélagsins í nóvember 2000
 

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 27.7.2009 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Einar Björn Bjarnason

Höfundur

Einar Björn Bjarnason
Einar Björn Bjarnason
Stjórnmála- og Evrópufræðingur. Áhugi á stjórnmálum, Evrópumálum, alþjóðamálum, málefnum Miðausturlanda, trúmálum, vísindum og tækni, og margt fleira.
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Eldri færslur

2024

2023

2022

2021

2020

2019

2018

2017

2016

2015

2014

2013

2012

2011

2010

2009

2008

Nýjustu myndir

  • Mynd Trump Fylgi
  • Kína mynd 2
  • Kína mynd 1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 845416

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband