Gagnrýnin umfjöllun um tillögu Stjórnlagaráðs!

Fyrst aðeins um orðið "gagnrýni" þá skilja alltof margir það í neikvæðri merkingu. En gagnrýni er alls ekki í sjálfu sér neikvæð. Heldur er rökstudd gagnrýni í reynd ábending um það hvað sá sem gagnrýnir telur miður fara. Sérstaklega ef gagnrýnandi samtímis bendir á það hvernig sá telur þ.s. viðkomandi telur gagnrýnisvert geti betur farið, þá telst viðkomandi gangrýnandi vera uppbyggilegur - ekki neikvæður.

Til að forðast allan misskilning er tillaga Stjórnlagaráðs að mati höfundar þessa pistils að mörgu leiti vel unnin, en eins og mannanna verk er hún heldur ekki fullkomin - og telur höfundur þessa pistils nokkur atriði geta betur farið.

Og kemur fram með hugmyndir, einmitt með hvaða hætti höfundur þessa pistils telur að betur fari.

Til samanburðar: Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands

Tillaga Stjórnlagaráðs: Frumvarp til stjórnskipunarlaga

39. gr.
Alþingiskosningar.
Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.
Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt.
Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta.
Samtök frambjóðenda bjóða fram lista, kjördæmislista eða landslista eða hvort tveggja.
Frambjóðendur mega bjóða sig fram samtímis á landslista og einum kjördæmislista sömu
samtaka.
Kjósandi velur með persónukjöri frambjóðendur af listum í sínu kjördæmi eða af landslistum, eða hvort tveggja. Honum er og heimilt að merkja í stað þess við einn kjördæmislista eða einn landslista, og hefur hann þá valið alla frambjóðendur listans jafnt. Heimilt er að mæla fyrir um í lögum að valið sé einskorðað við kjördæmislista eða landslista sömu samtaka. Þingsætum skal úthluta til samtaka frambjóðenda þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu.
Í lögum skal mælt fyrir um hvernig þingsætum skuli úthlutað til frambjóðenda út frá atkvæðastyrk þeirra.
Í lögum má mæla fyrir um að tiltekinn fjöldi þingsæta sé bundinn einstökum kjördæmum,
þó ekki fleiri en 30 alls. Tala kjósenda á kjörskrá að baki hverju bundnu sæti skal ekki vera lægri en meðaltalið miðað við öll 63 þingsætin.
Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna
og karla á Alþingi.
Breytingar á kjördæmamörkum, tilhögun á úthlutun þingsæta og reglum um framboð,
sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 hluta atkvæða á Alþingi. Slíkar breytingar má ekki gera ef minna en sex mánuðir eru til kosninga, og gildistaka þeirra skal frestast ef boðað er til kosninga innan sex mánaða frá staðfestingu þeirra.

 

  • En ég tel að fyrirkomulagið í 39. gr. gangi ekki með nokkrum hætti upp, sé ekki unnt að starfa skv. því, og þurfi að endurskoða. Þarna er tel ég misheppnuð tilraun til að sætta sjónarmið.
  • Ég legg til þ.s. ég tel mun heppilegri aðferð, sem ætti að ganga fullkomlega upp.
  • Mín tillaga er að Alþingi komi saman í tveim deildum, önnur landskjörin en hin kjördæmakjörin. Flokkar bjóði fram landslista annars vegar og kjördæma-lista hins vegar. Flokkur megi ef hann kýs svo, bjóða aðeins fram annað hvort.
 
65. gr.
Málskot til þjóðarinnar.
Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt.
Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi ef kjósendur hafna þeim, en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan árs frá því að krafa kjósenda var lögð fram.

  • Ég er þeirrar skoðunar að 10% sé of lágt hlutfall, en til samanburðar þá er ekki hægt að sjá annað á þeim söfnunum sem farið hafa fram til að skora á Forseta Ísland til að beita neitunarvaldi sínu skv. 26. gr. núverandi stjórnarskrár, en að 15% sé alls ekki of íþyngjandi.
  • Þarna skiptir auðvitað máli hvaða hlutverki fólk vill að slíkar atkvæðagreiðslur gegni. En ef við erum sammála því að grunnfyrirkomulag skuli vera fulltrúa-þingræði, þá sé eðlilegra að miða við að þessi málskotsréttur sé meir í ætt við að vera neyðarréttur. Fremur en, að stefnan sé á beint lýðræði.
  • Hingað til hafi ávallt tekist að safna rúmlega 30þ. undirskriftum, í söfnunum til hvatningar til forseta Íslands. Þetta er líka spurning um það, að þessi réttur sé ekki nýttur, nema fremur víðtæk óánægja sé til staðar.
  • En mig grunar að ef hlutfallið er 10%, sé það mögulegt að áhugahópar í stað þess að beita sér innan stjórnmálaflokka, að þeir fari að beita undirskriftasöfnunum til að koma sínum málum að - sbr. beint lýðræði.
  • Ítreka - að þarna er lykilatriðið hvert er meginmarkmiðið þ.e. - eru menn fylgjandi fulltrúalýðræði og þingræði sem meginreglu, eða vilja þeir í staðinn koma á beinu lýðræði. Ég vil hafa þingræðið áfram sem meginreglu, þess vegna legg ég til að viðmið verði 15% eða 20%.
--------------------------------------------------

Mér finnst vert að íhuga hvort ætti að setja upp málamiðlunar-fyrirkomulag að svissneskri fyrirmynd, til að fækka þjóðaratkvæðagreiðslum, forseti gæti fengið hlutverk sáttasemjara. Forseti getur þá flutt frumvarp fyrir Alþingi ef sátt næst um breytingu. Þá vil ég halda inni þeim möguleika að forseti geti lagt fram þingfrumvarp.

Fyrirkomulagið væri þá það, að þegar fyrir liggur að söfnun undirskrifta hefur náð tilskildu lágmarki, þá sé til staðar ákvæði þ.s. krafist er að aðilar sem deila, leiti sátta þ.e. Alþingi og þeir sem leggja fram viðkomandi kröfu með söfnun undirskrifta. 

Því sé gefinn fyrirframákveðinn tími - og ef sættir nást, flytji forseti sáttina sem frumvarp til laga fyrir Alþingi. 

Til þess, þarf þá forseti að halda þeirri heimild sem núverandi stjórnarskrá veitir skv. 25. gr.

Þeirri heimild hefur aldrei verið beitt, þ.s. hingað til hafa forsetar ekki séð nytsaman tilgang. En ofangreint getur einmitt verið slíkur.

--------------------------------------------------

66. gr.
Þingmál að frumkvæði kjósenda.
Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.
Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram
gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði, svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.
Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því
málið hefur verið afhent Alþingi.

  • Mér finnst 66. gr. full íþyngjandi fyrir þingræðið. Mér finnst að Alþingi skuli hafa óskorað forræði yfir setningu laga, eins og hingað til og eins og almennt tíðkast í þingræðislöndum en einnig t.d. í Bandar.
  • Ég er alls ekki að segja, að almenningur skuli alls ekki hafa þann rétt að leggja fram þingmál. En ég er algerlega andvígur því, að það fái aðra stöðu en hvert annað þingmál.
  • Það sé sem sagt lagt fram, til venjulegrar meðferðar. Og ef Alþingi er andvígt málinu, þá einfaldlega felli Alþingi málið, og þá sé afgreiðslu lokið.
  • Þarna sé verið að færa löggjafarvaldið, á götuna - a.m.k. að hluta. Mér virðist að hluti Stjórnlagaráðsmanna hafi verið áhugamenn um "beint lýðræði."
  • En ef menn vilja áfram að þingræði sé meginregla, og sama tíma að það sé áfram fulltrúalýðræði. Þá er þetta fyrirkomulag óeðlilegt stílbrot, sem klárt virðist mér geta grafið undan einmitt "þingræðinu" og "fulltrúalýðræðinu."

 

67. gr.
Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu.
Mál sem lagt er í þjóðaratkvæðagreiðslu að kröfu eða frumkvæði kjósenda samkvæmt
ákvæðum 65. og 66. gr. skal varða almannahag. Á grundvelli þeirra er hvorki hægt að
krefjast atkvæðagreiðslu um fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum né heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Þess skal gætt að frumvarp að tillögu kjósenda samrýmist stjórnarskrá. Rísi ágreiningur um hvort mál uppfylli framangreind skilyrði skera dómstólar þar úr.
Í lögum skal kveðið á um framkvæmd málskots eða frumkvæðis kjósenda, svo sem um
form og fyrirsvar fyrir kröfunni, tímalengd til söfnunar undirskrifta og um fyrirkomulag þeirra, hverju megi til kosta við kynningu, hvernig afturkalla megi kröfuna að fengnum viðbrögðum Alþingis, svo og um hvernig haga skuli atkvæðagreiðslu.

  • Ef sú takmörkun nær fram að ganga sem þarna sést stað, þá ef maður tekur dæmi, getur almenningur ekki beitt rétti þeim sem 65. gr. tillögu um nýja stjórnarskrá veitir almenningi, til að krefjast þess að þingmál sambærilegt við Icesave sem samþykkt hefur verið sem lög frá Alþingi skuli fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.
  • Mig grunar að meirihluti Stjórnlagaráðs, hafi viljað einmitt að tryggja það - að sambærileg mál í framtíðinni, geti ekki verið tekin úr afgreiðslu Alþingis.
  • Icesave sannarlega snerist einmitt um þjóðréttarskuldbindingu - og þ.e. einmitt skuldbinding af slíku tagi, sem er sérdeilir mikilvægt að þjóðin geti stöðva, ef hún ekki vill hana.
  • Því einmitt með þjóðréttarskuldbindingu, er unnt að skuldbinda hvert mannsbarn á landinu, en ekki einungis það, einnig komandi kynslóðir sem og þær sem eru að alast upp hverju sinni.
  • Þjóðréttarskuldbindingar eru einmitt - gríðarlegt alvörumál.

 

78. gr.
Forsetakjör.
Forseti Íslands er kosinn í leynilegri atkvæðagreiðslu þeirra er kosningarétt hafa til Alþingis.
Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst eins af hundraði kosningabærra manna og mest
tveggja af hundraði. Kjósendur skulu raða frambjóðendum, einum eða fleirum að eigin vali, í forgangsröð. Sá er best uppfyllir forgangsröðun kjósenda, eftir nánari ákvæðum í lögum, er rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri, er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu.
Að öðru leyti skal ákvarða með lögum um framboð og kosningu forseta Íslands.

  • Mér lýst ekki á þessa kosninga-aðferð, að forseti Íslands verði kosinn með þessari aðferð. Þetta er aðferð sú er beitt var við kosningu til Stjórnlagaráðs, sem eins og frægt er var ógilt af Hæstarétti.
  • Málið er að þetta er flókið í framkvæmd, sem býður upp á mistök, að auki talning mjög tafsöm sem og erfið.
  • Ef menn vilja annað fyrirkomulag við forsetakjör en núverandi, er betra að hafa 2-falda kosningu, þ.e. fyrst allir og síðan aftur milli tveggja eftstu. 
  • Fræðilega séð er kostur þessarar aðferðar sá, að þá falla færri atkvæði dauð en nú á sér stað, skv. hinni hefðbundnu aðferð, þá þarf að rína í seðla og skoða hver er settur nr. 2 og nr. 3 o.s.frv., þegar frambjóðandi sem var fyrsta val náði ekki einhverju tilskildu lágmarki. En þetta er flókið ferli, býður upp á mistök - fjölgar líklega kærumálum, skapar aukna hættu á ógildingu kosningar.

 

90. gr.
Stjórnarmyndun.
Alþingi kýs forsætisráðherra.
Eftir að hafa ráðfært sig við þingflokka og þingmenn gerir forseti Íslands tillögu til þingsins
um forsætisráðherra. Er hann rétt kjörinn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillöguna. Að
öðrum kosti gerir forseti Íslands nýja tillögu með sama hætti. Verði sú tillaga ekki samþykkt fer fram kosning í þinginu milli þeirra sem fram eru boðnir af þingmönnum, þingflokkum eða forseta Íslands. Sá er flest atkvæði hlýtur er rétt kjörinn forsætisráðherra.
Hafi forsætisráðherra ekki verið kjörinn innan tíu vikna skal Alþingi rofið og boðað til
nýrra kosninga.
Forsætisráðherra ákveður skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og skiptir störfum með
þeim, en ráðherrar skulu ekki vera fleiri en tíu.
Forseti Íslands skipar forsætisráðherra í embætti. Forseti veitir forsætisráðherra lausn frá
embætti eftir alþingiskosningar, ef vantraust er samþykkt á hann á Alþingi, eða ef ráðherrann óskar þess. Forsætisráðherra skipar aðra ráðherra og veitir þeim lausn.
Ráðherrar undirrita eiðstaf að stjórnarskránni þegar þeir taka við embætti.

  • Fyrirkomulagið í 90. gr. er frekar kjánalegt, en gersamlega er útilokað að nokkur óvissa geti verið um þá kosningu, það verði eins og er í dag að stjórn sé mynduð í samkomulagi milli foringja þeirra flokka er unnu kosningasigur, þannig að fyrirkomulagið er þá aðeins til málamynda. Hún geti ekki haft óvænta útkomu. Ég legg til að þessi atkvæðagreiðsla falli út, hún hafi engan nytsaman tilgang.
  • Fyrirkomulagið verði eins og tíðkast í þingræðislöndum, að þjóðhöfðingi ráðfærir sig við flokka á þingi, og veitir umboð til stjórnarmyndunar. 

 

91. gr.
Vantraust.
Leggja má fram á Alþingi tillögu um vantraust á ráðherra. Í tillögu um vantraust á forsætisráðherra skal felast tillaga um eftirmann hans.
Ráðherra er veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.

  • Í 91. gr. sé ég engan tilgang að tillaga inniberi tillögu að öðrum forsætisráðherra, ef það hefur myndast nýr meirihluti á Alþingi, þá munu flokkarnir hafa komið sér saman um nýjan.
  • En vantraust á forsætisráðherra er að sjálfsögðu ekki unnt að aðskilja vantrausti á ríkissjórn. En fræðilega er unnt að heimila að hægt sé að fella einstaka aðra ráðherra, en sú útkoma er reyndar mjög ólíkeg nema ráðandi meirihluti þings brotni upp, því þó ráðherrar væru ekki á þingi þá eru samt flokkarnir sem mynda meirihluta að baki þeim.

 

110. gr.
Þjóðréttarsamningar.
Ráðherra gerir þjóðréttarsamninga fyrir hönd Íslands. Þó getur hann enga slíka samninga
gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi, innsævi, landhelgi, efnahagslögsögu eða landgrunni, eða kalla á breytingar á landslögum, eða eru mikilvægir af öðrum ástæðum, nema samþykki Alþingis komi til.

  • Það þarf að skoða 110. gr. um þjóðréttarsamninga nánar.
  • En skv. þessu fyrirkomulagi, er ráðherra greinilega veitt heimild til að gera þjóðréttarskuldbindandi samninga án þess að Alþingi skipti sé af, þarna er greinilega fyrirkomulag sem er miðað við að Ísland verði í framtíðinni meðlimur að ESB, en þá er stöðugt verið að semja um margvísleg stór sem smá mál, og allt er það meira eða minna skuldbindingar þjóðréttarlegs eðlis, í því samhengi er það að sjálfsögðu þægilegra fyrir stofnanir ESB að ráðherrar aðildarríkis hafi heimild til að samþykkja samninga sem rúmast innan ofangreindrar heimildar, án þess að mál tefjist vegna þess að það þarf fyrst að ræða við þingið.
  • En ég er ekki til í að sveigja reglur hér á þingi að þeim sjónarmiðum. Eftir allt saman andvígur aðild, vil því ekki fyrirkomulag er virðist gera ráð fyrir Íslandi sem meðlimi.
  • Mér finnst eiginlega að Alþingi eigi alltaf að hafa lokaorðið með þjóðréttar-skuldbindandi samkomulag við önnur ríki, alveg óháð umfangi máls.

 

111. gr.
Framsal ríkisvalds.
Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra
stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal
ávallt vera afturkræft.
Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi
felst.
Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin
borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi.

  • 111. gr. er auðvitað sprengiefnið, sem margir eru heitir á móti. En hún gerir aðild að ESB mögulega skv. stjórnarskrá.
  • Skv. núverandi stjórnarskrá er ekki neitt slíkt heimildarákvæði, og varanlegt framsal fullveldis ekki heimilt. Þó nefnt sé að slíkt framsal sé afturkræft, er það ekki heyglum hent að yfirgefa ESB þegar þú ert loks kominn þar alla leið inn.
  • Það er þó einn kostur við þessa grein, er skv. henni væri þjóðaratkvæðagreiðslan í tilvikinu lagalega bindandi, en hún er það ekki skv. núverandi stjórnarskrá.
  • En þ.e. ekki endilega risastórt atriði - ef fólk er andvígt aðild. Er að berjast fyrir því, að umsókn Íslands verði dregin til baka, svo málið fari einfaldlega ekki alla leið til kláraðs samnings.

 

Niðurstaða

Eins og fram kemur, þá sé ég nokkrar ambögur á tillögu Stjórnlagaráðs. Það þíðir ekki að ég sé að segja að sú tillaga sé ómöguleg, skuli henda á ruslahaug sögunnar. Heldur að, ég tel að Alþingi skuldi taka þá tillögu til þinglegrar meðferðar. Og gera á henni breytingar.

Skv. því - Svona lítur kjörseðilinn út 20. október - þá mæli ég ekki með því, að fólk setji já við "Já ég vil að tillögur Stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri Stjórnarskrá" því að, já við þeirri spurningu verður notað til að skapa þrýsting á að Alþingi afgreiði skjalið óbreytt.

Aftur á móti, legg ég til að fólk "jánki" hverju því öðru sem tillagan inniheldur og fólk er sammála.

Sem skapar þá þrýsting á Alþingi að lokaútgáfa nýrrar Stjórnarskrár innihaldi þau ákvæði sem fólk er sátt við.

Til að forðast misskilning er þjóðaratkvæðagreiðslan þann 20/10 nk. leiðbeinandi, ekki lagalega bindandi. Enda er það Alþingi eitt sem fer með löggjafarvaldið skv. núverandi stjórnarskrá, en að sjálfsögðu er hún í gildi og því ákvæði hennar um það með hvaða hætti er unnt að gera breytingar á gildandi stjórnarskrá. Að semja nýja telst vera að breyta stjórnarskrá skv. þeim skilningi.

 

Kv.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Um bloggið

Einar Björn Bjarnason

Höfundur

Einar Björn Bjarnason
Einar Björn Bjarnason
Stjórnmála- og Evrópufræðingur. Áhugi á stjórnmálum, Evrópumálum, alþjóðamálum, málefnum Miðausturlanda, trúmálum, vísindum og tækni, og margt fleira.
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Eldri færslur

2024

2023

2022

2021

2020

2019

2018

2017

2016

2015

2014

2013

2012

2011

2010

2009

2008

Nýjustu myndir

  • Mynd Trump Fylgi
  • Kína mynd 2
  • Kína mynd 1

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 757
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 693
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband